Komnir á dauðaeyjuna

Tveir ástralskir fíkniefnasmyglarar, sem taka á af lífi í Indónesíu, voru fluttir á eyjuna þar sem aftakan fer fram. Ekkert virðist geta breytt ákvörðun indónesískra stjórnvalda varðandi aftökuna þrátt fyrir beiðni þar að lútandi frá stjórnvöldum í Ástralíu.

Andrew Chan og Myuran Sukumaran, sem eru taldir höfuðpaurar fíkniefnasmyglhrings sem nefndis „Bali Nine“ en þeir voru dæmdir til dauða árið 2006 fyrir að reyna að smygla heróíni frá Indónesíu.

Í morgun voru þeir vaktir í skyndingu og fengu einungis nokkrar mínútur til þess að undirbúa sig fyrir brottför frá Kerobokan fangelsinu á Balí.

Að sögn ráðuneytisstjóra í dómsmálaráðuneytinu, Nyoman Putra Surya, voru þeir handjárnaðir og fluttir á brott. 

Michael Chan reyndi að hitta bróður sinn, Andrew, fyrir brottför en honum var synjað um að fá að koma í fangelsið. Segir Surya skýringuna vera á að í dag sé ekki heimsóknardagur.

Flogið var með mennina til Cilacap á Jövu og þaðan siglt með þá til Nusakambangan eyju þar sem þeir verða teknir af lífi. Ekki hefur verið gefið upp hvenær aftakan fer fram en samkvæmt upplýsingum AFP eru þeir nú fangelsi þar sem hættulegustu glæpamennirnir eru geymdir. Má þar nefna nokkra aðra fíkniefnasmyglara sem einnig hafa verið dæmdir til dauða og verða væntanlega teknir af lífi á sama tíma og tvímenningarnir. Má þar nefna Frakka, Brasilíumann, einn er frá Filippseyjum, annar frá Gana og einn Nígeríumaður. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert