Barðir niður með rasismakylfunni

Víða um heim var alþjóðlegur dagur gegn rasisma og fasisma …
Víða um heim var alþjóðlegur dagur gegn rasisma og fasisma haldinn hátíðlegur í dag. AFP

Þeim sem hafa gagnrýnt notkun á hugtökum eins og rasisti og fasisti í innflytjendaumræðum hefur bæst óvæntur liðsauki úr röðum þekktra vinstrimanna. Og Bretinn Trevor Phillips er ekki bara vinstrisinni, hann er líka blökkumaður. Í dag er alþjóðlegur dagur gegn rasisma og fasisma haldinn hátíðlegur.

Sumir hægrimenn í Bretlandi segja að ein helsta skýringin á vexti UKIP-flokksins sé ekki endilega andúð flokksins á Evrópusambandinu. Ástæðan sé ekki síður að fjölmörgu hvítu fólki finnist sem allt of mikið sé hlaðið undir minnihlutahópa og þjóðarbrot. Það finni sér ekki farveg hjá gömlu flokkunum sem hundsi það og viðhorf þess. Kalli það bara rasista.

Aðrir megi tala um að það sé „í eðli hvítra að deila og drottna til að halda þannig völdum“ en þetta sagði Diane Abbott, þingmaður Verkamannaflokksins og blökkukona, þegar hún ræddi um deilur vegna morðs á ungum blökkumanni, Steven Lawrence. Ef eitthvað álíka neikvætt væri sagt um svarta íbúa eða Asíumenn yrði hneykslunin gríðarleg.

„Þorri Breta er ekki rasistar en þeir hafa áhyggjur af innflytjendastefnunni og glæpum sem framdir eru af ákveðnum hlutum samfélagsins,“ segir Philip Hollobone, þingmaður Íhaldsflokksins.

Guðinn sem brást

Trevor Phillips er blökkumaður og var lengi mikil vonarstjarna í Verkamannaflokknum, hann segir einnig að UKIP sé merki um alvarlega meinsemd í umræðunum, skort á heiðarleika. Tillitssemin við útlendinga og aðra hópa en hvíta hafi gengið út í öfgar. Snúa verði taflinu við, allir verði að sætta sig við að fólk tjái sig opinskátt um kynþáttamál þótt það geti stundum verið meiðandi fyrir einhverja hópa og þjóðarbrot. Allir verði að koma sér upp skráp.

Þeir sem enn styðji fjölmenningarhugmyndina, þá lausn að innflytjendur fái bara að setjast að og halda fast í eigin menningu, trú og tungu, verði að viðurkenna að hún hafi brugðist.

„Hvítir eru nýju blökkumennirnir,“ segir Phillips. „Það er öfugsnúið og var ekki ætlunin með tilraunum okkar til að auka virðingu fyrir fjölbreytni að stjórnmálamenn og fjölmiðlamenn skuli vera orðnir dauðhræddir við að fjalla um mismun vegna kynþáttar og trúarbragða.“ Phillips stýrði í nær áratug opinberum stofnunum sem tryggja áttu jafnrétti kynþáttanna en hefur frá 2009 verið vægast sagt umdeildur í eigin röðum.

Sjálfur segist Phillips hafa upplifað misrétti eins og aðrir breskir blökkumenn. Hann sé stoltur af því að hafa barist gegn kynþáttamisrétti og oft náð árangri. En hann óttist að skoðanir sem hafi á sínum tíma verið eðlilegar hafi leitt áköfustu stuðningsmenn þeirra afvega. Og þaggað niður í öðrum. Allt of mörg tabú ráði ferðinni, hræðslan við rasistastimpilinn haldi aftur af fólki. Alls staðar séu hættur, ekki megi segja að of margir Rúmenar stundi vasaþjófnað, ekki segja að allt of margir Kínverjar stundi smygl á fólki, að glæpatíðni sé há meðal ungra, breskra blökkumanna. Ekki segja að þótt margir breskir gyðingar séu fátækir séu gyðingarnir að meðaltali helmingi ríkari en aðrir Bretar.

Ekki hafi mátt nefna að nær allir þátttakendur í svívirðilegri meðferð á ungum, hvítum táningsstelpum í Rotherham og víðar hafa verið ungir múslímar af pakistönskum uppruna. Stúlkurnar voru lokkaðar upp í bíla og þeim nauðgað. Lögreglan sinnti ekki fjölmörgum tilraunum aðstandenda til að gera eitthvað í málinu – af ótta við rasistastimpil.

„Langur skuggi þrælahaldsins og Helfararinnar gerir okkur með réttu smeyk við hugsanaletina sem olli því að heilar þjóðir voru reknar út úr mannkyninu, þær gerðar ómanneskjulegar,“ segir Phillips. „En á sagan að koma í veg fyrir að við skiljum hvað greinir okkur að – jafnvel þótt slíkur skilningur gæti bætt líf okkar allra?“

Bent er á að margir innflytjendur lifi einangraðir í eigin hverfum, menningarlegum afkimum þar sem margs konar þröngsýni og afturhald ráði ríkjum. Vestræn gildi eins og jafnrétti kynjanna og tjáningarfrelsi séu þar hunsuð.

Í dag er alþjóðlegur dagur gegn rasisma og fasisma haldinn …
Í dag er alþjóðlegur dagur gegn rasisma og fasisma haldinn hátíðlegur. Liðsmenn Gullnar dögunar á Grikklandi mótmæltu innflytjendum í tilefni dagsins. AFP
Baráttudagur gegn rasisma og fasisma
Baráttudagur gegn rasisma og fasisma AFP
AFP
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert