Hröktu Nigel Farage út af krá

Nigel Farage, leiðtogi Breska sjálfstæðisflokksins (UKIP).
Nigel Farage, leiðtogi Breska sjálfstæðisflokksins (UKIP). AFP

Mótmælendur hröktu Nigel Farage, leiðtoga Breska sjálfstæðisflokksins (UKIP), og fjölskyldu hans út af krá í Kent á Englandi í dag þar sem þau sátu að snæðingi.

Fram kemur á fréttavef Daily Telegraph að Farage hafi kallað mótmælendurna óþjóðalýð en þeir réðust meðal annars að bifreið Farage þegar hann ók á brott ásamt eiginkonu sinni. Stukku meðal annars á vélarhlíf bifreiðarinnar.

Haft er eftir Farage að fjölskyldan hafi tvístrast í látunum og að tvær dætur þeirra, 15 ára og 10 ára, sem verið hafi með þeim, hafi orðið mjög hræddar og flúið á brott. Þær hafi ekki enn komið í leitirnar. Farage gagnrýnir mótmælendur harðlega fyrir að beita ofbeldi til þess að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. „Ég vona að þessi óþjóðalýður sé stoltur af sjálfum sér.“

Mótmælendurnir mættu á staðinn eftir að mynd hafði verið tekin af Farage á staðnum og birt á netinu. Haft var eftir skipuleggjanda mótmælanna, Dan Glass, að Breski sjálfstæðisflokkurinn væri loddaraflokkur sem héldi því fram að hann væri á móti kerfinu en það væri fjarri sannleikanum. Flokkurinn kenndi innflytjendum um ástand efnahagsmála en ekki bankamönnum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert