Hótuðu Þjóðverjum vegna Snowden

Sigmar Gabriel er efnahags- og orkumálaráðherra, en einnig vara-kanslari.
Sigmar Gabriel er efnahags- og orkumálaráðherra, en einnig vara-kanslari. AFP

Efnahags- og orkumálaráðherra Þýskalands, Sigmar Gabriel, hefur sagt frá því að bandarísk stjórnvöld hótuðu að hætta að deila leynilegum upplýsingum með Þjóðverjum, ef þeir byðu uppljóstraranum Edward Snowden hæli.

Samkvæmt The Intercept flutti Gabriel erindi í Homburg í liðinni viku þar sem hann lofaði þá blaðamenn sem hefðu unnið fréttir upp úr Snowden-skjölunum. Þá  harmaði að uppljóstrarinn hefði verið tilneyddur til að leita hælis í Rússlandi Vladimir Pútín, þar sem engin önnur þjóð reyndist viljug til að forða honum frá fangelsun af hálfu Bandaríkjamanna.

Einn áhorfenda truflaði ræðu ráðherrans og spurði hvers vegna stjórnvöld í Þýskalandi hefðu þá ekki boðið Snowden hæli. Gabriel svaraði að þau hefðu verið skuldbundin til að framselja hann til Bandaríkjanna.

Í samtali við Intercept viðurkenndi ráðherrann hins vegar að stjórnvöld vestanhafs hefðu hótað þýskum ráðamönnum mjög ákveðið að hætta að deila með þeim leynilegum gögnum ef þau byðu Snowden hæli, sem m.a. þýddi að þeir yrðu ekki látnir vita um yfirvofandi árásir.

Þetta mun ekki vera í fyrsta sinn sem Bandaríkjamenn hafa frammi hótun af þessu tagi. Nánar má lesa um málið hjá The Intercept.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert