Hvað gerðist í flugstjórnarklefanum?

Ættingjar og vinir þeirra 150 sem voru í þotu Germanwings sem fórst í frönsku Ölpunum á þriðjudag munu fara á slysstaðinn í dag. Enn er allt á huldu um hvað gerðist í flugstjórnarklefanum skömmu fyrir að flug 4U 9525 brotlenti.

Remi Jouty, sem stýrir frönsku flugslysanefndinni, segir í samtali við BBC að það heyrist hljóð og raddir á flugritanum sem geymi upplýsingar um samskipti í flugstjórnarklefanum. Hann segir of snemmt að draga neinar ályktanir strax um hvað gerðist. Hann vonist til þess að þeir sem vinni að rannsókninni verði búnir eftir nokkra daga að draga útlínurnar í rannsókninni. En ekki sé útilokað að rannsóknin eigi eftir að taka vikur eða mánuði.

Líkt og kom fram á mbl.is þá birti New York Times frétt í gærkvöldi sem miðillinn hafði eftir ónafngreindum heimildarmanni sem vinnur að rannsókn flugslyssins að annar flugmannanna hafi yfirgefið flugstjórnarklefann og ekki komist inn í hann aftur.

„Þú getur heyrt að hann er að reyna að brjóta hurðina,“ hefur NYT eftir manninum sem lýsir þar hljóðum sem rannsóknarnefndin heyrir á flugritanum.

Heimildarmaður sem þekkir vel til rannsóknarinnar hefur svipaða sögu að segja við AFP fréttastofuna.

„Flugvélinni var flogið allt til loka“

BBC segir að það hafi verið fréttir um að hinn flugritinn hafi fundist, ferðaritinn.Hann skráir til dæmis flughraða og flughæð flugvélarinnar, hröðun, snúning vélar, hita innan vélar og utan og svo framvegis. Upplýsingarnar sem ferðritinn skráir eru síðan notaðar til að skilja atburðarrásina og hvað fór úrskeiðis ef flugvél ferst eða henni hlekkist á.

Jouty segir að það sé ekki rétt, ferðaritinn sé enn ófundinn. Síðustu samskipti við flugvélina hafi verið hefðbundið reglulegt eftirlit. Flugmenn hafi staðfest leiðbeiningar um áætlaða flugleið en mínútu síðar hafi flugvélin farið að lækka flugið hratt.

Að sögn Jouty fylgdust flugumferðarstjórar með flugvélinni allt frá því hún fór að lækka flugið og reyndu að ná sambandi við flugmennina án árangurs. „Flugvélinni var flogið allt til loka.“

Heimildir AFP herma að á upptökunni heyrist þegar sæti var ýtt aftur og hurðin opnast og lokast. Síðan heyrist bankað á hurðina og eftir það heyrast engar samræður. Ekkert neyðarkall barst frá flugvélinni og átta mínútum fyrir slysið rofnaði sambandið við flugstjórn en þotan lagði upp frá Barcelona og var leiðinni heitið til Düsseldorf. Ljóst er að þotan lækkaði hratt flugið af ókunnum ástæðum og hrapaði eftir stutt flug. 

Samkvæmt AFP heyrist á upptökunum þar sem flugmennirnir ræða eðlilega saman á þýsku í upphafi flugs og ekki er hægt að greina hvor þeirra er yfirgefur flugstjórnarklefann, það er flugstjórinn eða flugmaðurinn. 

Öryggismál hert í kjölfar hryðjuverka

Á vefnum Allt um flug er fjallað um það þegar flugstjórnarklefinn læsist en í kjölfar hryðjuverkanna á Bandaríkin 11. september 2001 voru öryggismál hert gríðarlega, einkum þau sem snúa að dyrum flugstjórnarklefans og hafa þá vaknað þær spurningar hvort flugfélögin séu farin að fá öryggið í bakið ef flugmennirnir komast ekki inn í klefann

„Seinast átti sér stað sambærilegt atvik er aðstoðarflugmaður hjá Ethiopian Airlines læsti sig í stjórnklefa á Boeing 767 vél í fyrra er flugstjórinn brá sér á salernið og fór fram á að fá pólitískt hæli í Sviss eftir að hafa flogið vélinni til Genf en sú vél var á leið til Rómar,“ segir á vefnum Allt um flug.

Meðal þeirra kenninga sem hafa verið ræddar núna eru annars vegar sá möguleiki að flugmaðurinn hafi vísvitandi læst hinn flugmanninn úti og framið sjálfsvígsárás en eins hafa verið vangaveltur um hvort flugmaðurinn í stjórnklefanum hafi misst meðvitund eða jafnvel fengið hjartaáfall.

Það er móðurfélag Germanwings, Lufthansa, sem annast flutning ættingja og vina á slysstaðinn en boðið verður upp á sérstök flug frá Barcelona og  Düsseldorf til Marseille. Þaðan verður landleiðin farin. 72 farþeganna voru þýskir, þar á meðal 16 nemendur. Spænsk yfirvöld segja að 51 Spánverji hafi farist í slysinu en eins létust Bretar, Ástralar, Argentínumenn, Írani, Venesúelabúi, Bandaríkjamenn, Hollendingar, Kólumbíubúar, Mexíkóar, Japanir, Danir og Ísraelar. Enn eru misvísandi upplýsingar um þjóðerni þeirra sem létust. 

Germanwings sendi frá sér yfirlýsingu í nótt vegna frétta um að einungis annar flugmaðurinn hafi verið í flugstjórnarklefanum þegar vélin flaug á fjallið. Þar kemur fram að á þessari stundu hafi fyrirtækið engar upplýsingar frá réttmætum yfirvöldum sem staðfesta þetta. „Við gerum hvað sem er til þess að fá sem mestar upplýsingar og mögulegt er og tökum ekki þátt í slíkum bollaleggingum.“

Líkt og hér kemur að framan þá þýða hertar öryggisreglur eftir 11. september 2001 að einungis er hægt að opna hurðina á flugstjórnarklefann innan frá. Flugsérfræðingar sem AFP fréttastofan hefur rætt við í morgun hafa komið með nokkrar skýringar á því sem gæti hafa gerst. Ef flugmennirnir reyna ekki að hindra að flugvélin fljúgi á fjallið þá er það vegna þess að þeir eru annað hvort látnir eða meðvitundarlausir. Eða að þeir hafi framið sjálfsvíg eða verið neyddir til þess að deyja.

Lufthansa hefur sent frá sér tilkynningu um flugmanninn en hann hóf störf hjá félaginu í september 2013 og á að baki 630 flugtíma. Flugstjórinn var með meira en tíu ára reynslu og yfir 6000 flugtíma að baki við að fljúga Airbus A320 þotum. 

Guardian

BBC

NYT

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert