Sýndu lík árásarmannanna

Sjúkraliðar hlúa að konu sem særðist í árásinni á fimmtudaginn.
Sjúkraliðar hlúa að konu sem særðist í árásinni á fimmtudaginn. AFP

Lögregla í Kenía sýndi í dag lík fjögurra manna sem eiga að hafa tekið þátt í árás hryðjuverkasamtakanna al-Shebab á skóla í landinu á fimmtudaginn. Samkvæmt frétt AFP-fréttaveitunnar keyrðu lögreglumenn með nakta líkama mannanna um aðalgötu bæjarins Garissa. Sögðu þeir að það væri gert til þess að athuga hvort einhver gæti borið kennsl á árásarmennina.

Hundruðir manna, þar á meðal börn, fóru út á götu til þess að sjá líkin sem raðað var í stafla á bílpalli. Sumir köstuðu steinum í líkin á meðan aðrir gerðu gys af þeim og öskruðu á þau. 

Keyrði bíllinn með líkin næstum því hálfan kílómetra, frá sjúkrahúsi bæjarins þar til hann stoppaði nálægt leikvelli. Hundruðir fylgdust með þrátt fyrir slæma lykt sem barst frá líkunum, en tveir dagar eru síðan mennirnir létust. 

„Þetta átti ekki að vera skrúðganga heldur tilraun til þess að bera kennsl á mennina,“ sagði lögreglustjórinn Benjamin Ong’ombe. Bætti hann við að líkin hafi verið flutt aftur á sjúkrahúsið.

„Of margir komu til að sjá líkin þannig við þurftum að skila þeim aftur,“ sagði Ong'ombe. 

Fimm menn hafa verið handteknir í tengslum við árásina en í henni létust 142 nemendur, þrír lögreglumenn og þrír hermenn. 

Samkvæmt frétt AFP-fréttaveitunnar tóku margir myndir af líkunum með símum sínum en ekki voru aðrir eins hrifnir. 

„Það að koma með lík hinna látnu, hvort sem þeir eru hryðjuverkamenn eða ekki, og keyra með þá nakta um göturnar, mun aðeins æsa hryðjuverkamenn til þess að sýna enn meira hatur í næstu árás,“ sagði Abdi Hussein, íbúi þorpsins. „Það er ómannúðlegt að sýna nakin lík.“

Var árásin á fimmtudaginn sú blóðug­asta í Ken­ía frá því að liðsmenn al-Qa­eda frömdu sprengju­árás við banda­ríska sendi­ráðið í Naíróbí árið 1998. Þá lét­ust 213 manns þegar öfl­ug bíl­sprengja var sprengd þar.

„Að keyra um göturnar í dagsljósi í landi sem á að sýna fólki virðingu er vandræðalegt,“ sagði Ahmed Yusuf, nemi við háskóla. „Í staðinn fyrir að keyra með líkin út á götu núna, hefðu öryggissveitir átt að einbeita sér að því að stöðva þá í því að drepa námsmenn,“ bætti hann við. 

Mohamed Mohamund, fyrrum kennari í Kenía er talinn hafa skipulagt árásina á háskólann í Garissa. Er hann meintur foringi innan al-Shebab og talinn vera í felum í Sómalíu. Sett hefur verið verðlaunafé upp á 215,000 bandaríkjadali eða tæpar 30 milljónir króna, til höfuðs Mohamund. 

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert