Dæmd fyrir drykkju og kynlíf

AFP

28 karlar og konur hafa verið dæmd sek um að hafa mætt í partý um borð í snekkju í Dubai en þar var bæði haft áfengi um hönd og kynlíf stundað. Hluti hópsins var dæmdur í fangelsi fyrir lögbrotið en aðrir voru dæmdir til greiðslu sektar.

Tveir karlar og þrjár konur fengu ársfangelsisdóm fyrir að stunda kynlíf án þess að vera í hjónabandi, segir í frétt  Khaleej Times. Mennirnir tveir eru báðir lögreglumenn. Allir hinir seku voru dæmdir til að greiða 2 þúsund dirhams, sem svarar til 74 þúsund króna, fyrir að hafa komið saman og drýgt syndir. 

Umrætt partý var haldið um borð í snekkju í höfninni í Dubai í október í fyrra. Lögregla gerði húsleit í snekkjunni og lagði hald á 110 flöskur af áfengi, rúmfatnað og fleiri muni sem rannsakaðir voru í tengslum við syndir fólksins. Karlarnir, 15 talsins, eru á aldrinum 21 og 43 ára en konurnar eru á aldrinum 20-36 ára. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka