Ástandið ómannlegt

Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna hefur krafist þess að hjálparstarfsmönnum verði hleypt inn í Yarmouk-flóttamannabúðir Palestínumanna í Damaskus í mannúðarskyni. Starfsmaður SÞ segir í samtali við BBC að aðstæður þeirra 18 þúsund flóttamanna sem eru í búðunum séu ómannlegar.

Ástandið þar hefur versnað enn frekar síðustu daga en 1. apríl gerðu liðsmenn Ríkis íslams árás á búðirnar.

Palestínskir skæruliðar, sem eru andsnúnir stjórnvöldum í Sýrlandi og liðsmenn Frjálsa sýrlenskra hersins (Free Syrian Army), leiða baráttuna gegn liðsmönnum Ríkis íslams um búðirnar.

Dina Kawar, fulltrúi Jórdaníu í öryggisráðinu, segir að það sé lífsspursmál að vernda íbúa í flóttamannabúðunum og að sögn Pierres Krahenbuhls hjá palestínsku neyðarsamtökunum Unwra er ástandið skelfilegra en nokkru sinni fyrr. Hann flutti öryggisráðinu skýrslu um ástandið í búðunum í gærkvöldi.

Sendiherra Palestínu hjá SÞ, Riyad Mansour, segir að það sé forgangsmál ríkisstjórnar Palestínu að koma flóttamönnunum til bjargar. Hann  biðlar til ríkja Sþ um að koma flóttamönnunum fyrir annars staðar í Sýrlandi eða í öðrum ríkjum.

Á BBC kemur fram að það hafi alltaf verið áhyggjuefni hjá sýrlensku ríkisstjórninni að Yarmouk-flóttamannabúðirnar yrðu notaðar sem stökkpallur uppreisnarmanna inn í höfuðborgina vegna staðsetningar búðanna. Samkvæmt fréttum virðist sem Ríki íslams ráði yfir 90% af búðunum, sem þýðir að hreyfingin nálgast hjarta Damaskus hægt og bítandi. 

Sprengjum hefur verið varpað á flóttamannabúðirnar úr þyrlum stjórnarhersins þrátt fyrir að stjórnarandstæðingar saki ríkisstjórnina um að styðja aðgerðir Ríkis íslams svo hægt verði að afgreiða alla uppreisnarmenn sem hóp hryðjuverkamanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert