Obama fordæmir meðferðir sem eiga að lækna samkynhneigð

Leelah Alcorn gat ekki hugsað sér að lifa lengur í …
Leelah Alcorn gat ekki hugsað sér að lifa lengur í þeim fordómum sem hún fann fyrir frá fjölskyldu sinni. Ljósmynd/Tumblr síða Leelah

Bandaríkjaforseti, Barack Obama, hefur fordæmt sálrænar meðferðir sem eru í boði í Bandaríkjunum sem ætlað er að „laga“ ungt fólk af samkynhneigð og þá sem eru transgender.

Obama gaf út þessa yfirlýsingu vegna bænarskjals á netinu þar sem óskað er eftir því að bannað verði að bjóða slíkar meðferðir. Yfir 120 þúsund manns hafa skrifað undir á þeim þremur mánuðum sem eru liðnir frá því bænarskjalið var sett á netið í kjölfar dauða Leelah Alcorn, 17 ára transgender stúlku sem framdi sjálfsvíg í desember.

„Dauði minn þarf að þýða eitthvað“

Alcorn fædd­ist sem dreng­ur, en hafði upp­lifað sig sem stúlku frá fjög­urra ára aldri. Hún lést þann 28. des­em­ber sl. þar sem hún gat ekki hugsað sér að lifa leng­ur í þeim for­dóm­um sem hún fann fyr­ir frá fjöl­skyldu sinni.

Í bréfi sem ráðgjafi forsetans, Valerie Jarrett, ritar til þeirra sem standa að bænaskjalinu kemur fram að forsetaembættið deili áhyggjum þeirra um þau skelfilegu áhrif sem slíkar meðferðir geti haft á líf þeirra sem eru transgender, samkynhneigðir, tvíkynhneigðir og ungmenna sem eru öðruvísi.

Sem hluti af ákvörðun bandarískra yfirvalda um að vernda bandarísk ungmenni þá styður Bandaríkjastjórn að bann verði lagt á slík meðferðarúrræði fyrir ungmenni.

Slík ráðgjöf og bænir eru notaðar í meðferðum meðal ákveðinna hópa kristinna til þess að reyna að fá ungt fólk til þess að láta af samkynhneigð. „Við teljum að hægt sé að breyta. Fólk fer í slíka meðferð þar sem það getur breyst. Vegna þess að þetta virkar svo sannarlega,“ segir David Pickup, fjölskylduráðgjafi í Kaliforníu og Texas í samtali við New York Times. 

En líkt og BBC bendir á hafa geðhjálparhópar og baráttusamtök samkynhneigðra sagt að það að senda ungmenni í slíka meðferð geti aukið líkurnar á þunglyndi þeirra og að þau fremji sjálfsvíg.

Slíkar meðferðir eru bannaðar í Kaliforníu og New Jersey en í öðrum íhaldssamari ríkjum, eins og Oklahoma, er verið að kanna hvort hægt sé að setja lög sem komi í veg fyrir að hægt verði að lögsækja þá sem bjóða upp á slíkar meðferðir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert