Hvatti flugmenn til að gifta sig

AFP

Forstjóri  Turkish Airlines hvatti einhleypa flugmenn félagsins til að giftast, í kjölfar frétta um að flugmaður GermanWings, sem flaug farþegaþotu viljandi á fjall, hafi glímt við geðræn vandamál.

Harmleikurinn í síðasta mánuði „kenndi okkur nýja hluti og það að vera flugmaður er mjög erfitt verkefni. Lífsstíll flugmanna - hvort sem þeir eru karlar eða konur - er mjög mikilvægur,“ sagði forstjóri Turkish Airlines, Temel Kotil, í viðtali við tyrkneska dagblaðið Hurriyet. „Slysið átti sér stað eftir að kærasta flugmannsins yfirgaf hann. Svo, mínir kæru vinur, takið tillit til þess að við ráðleggjum okkar einhleypu flugmönnum að ganga í hjónaband.“

Í fyrstu fréttum af slysinu kom fram að flugmaður GermanWings, Andreas Lubitz, hefði nýverið hætt með kærustu sinni. Sú frétt var þó dregin til baka fljótlega og önnur kona steig fram og sagðist hafa verið kærasta hans. 

Kotil segir að það ættu að vera fleiri kvenkyns flugmenn hjá Turkish Airlines. Hann segir að af 86 nýútskrifuðum flugmönnum séu aðeins þrjár konur. Hann segir að aðeins 40 kvenkyns flugmenn séu hjá félaginu en þar starfa í heild 4.000 flugmenn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert