Vörpuðu kristnum fyrir borð

Ítalska lögreglan handtók fimmtán múslíma sem talið er að hafi varpað tólf kristnum flóttamönnum fyrir borð eftir að hafa lent í illdeilum um borð í flóttabát á leið til Ítalíu.

Í gær drukknuðu yfir fjörtíu flóttamenn þegar annar flóttabátur sökk á leiðinni milli Líbíu og Ítalíu. En tæplega 10 þúsund hefur verið bjargað á Miðjarðarhafi undanfarna daga. Um er að ræða fólk sem er að flýja heimalandið í leit að betra lífi í Evrópu. Stjórnvöld á Ítalíu hafa óskað eftir frekari aðstoð Evrópusambandsins til þess að takast á við straum flóttamanna til landsins.

Yfir 500 manns frá Afríku og Miðausturlöndum hafa drukknað á flótta yfir Miðjarðarhaf til Evrópu það sem af er ári. Talið er að um 400 manns hafi drukknað þegar bát þeirra hvolfdi fyrr í vikunni skammt frá strönd Líbíu.

Múslímarnir fimmtán, sem talið er að hafi varpað kristnu flóttamönnum fyrir borð, voru handteknir í borginni Palermo á Sikiley í gær og ákærðir fyrir að hafa myrt fólkið vegna trúarskoðana þeirra. 

Hinir handteknu eru frá Fílabeinsströndinni, Senegal, Malí og Gíneu. Þeir voru meðal 105 flóttamanna um borð í bát sem fór frá Líbíu á þriðjudag. Vitni segja lögreglu að orðaskak milli mannanna hafi endað með því að þeim kristnu var varpað fyrir borð. Hluti hópsins sem varð eftir um borð hafi myndað mannlega keðju til þess að koma í veg fyrir að hljóta svipuð örlög. 

AFP
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert