ESB sakar Gazprom um samkeppnisbrot

Merki Gazprom í Moskvu.
Merki Gazprom í Moskvu. ALEXANDER NEMENOV

Samkeppnisstjóri Evrópusambandsins sakar rússneska orkurisann Gazprom um að misnota markaðsráðandi stöðu sína í aðildarríkjum þess í Mið- og Austur-Evrópu. Fyrirtækið hefur þrjá mánuði til að bregðast við ásökununum.

Gazprom hefur sums staðar nær full yfirráð yfir markaði með gas í þessum löndum en Margrethe Vestager, samkeppnisstjóri ESB, segir að framferði fyrirtækisins þar jafngildi misbeitingu á markaðsráðandi stöðu. Fyrirtækið setji ákvæði í samninga sem koma í veg fyrir að gas sé flutt á milli vissra Mið-Evrópuríkja til annarra. Það komi í veg fyrir samkeppni frá einu landi til annars og geri Gazprom kleift að rukka ósanngjarnt verð fyrir gasið.

Þessar nýjustu vendingar eru ólíklegar til að bæta samskipti Evrópusambandsins og rússneskra stjórnvalda en sambandið hefur þegar beitt Rússa efnahagslegum og pólitískum refsiaðgerðum vegna hlutdeildar þeirra í átökunum í Úkraínu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert