Enn eitt eldgosið - nú á Kosta Ríka

Enn eitt eldfjallið er byrjað gjósa, nú á Kosta Ríka. Eldgos hófst í Turrialba eldfjallinu í gær og hefur þurft að loka fyrir flugumferð um alþjóðaflugvöllinn í höfuðborginni San Jose. Flugvöllurinn er í einungis 80 km fjarlægð frá eldfjallinu.

Í gær og fyrradag hóf eldfjallið Calbuco að gjósa í Síle eftir þögn í hálfa öld.

„Þetta er tilkomumikil gosbyrjun, sprengigos í eldkeilu sem byrjar snögglega og með háum gosstrók,“ segir Páll Einarsson, jarðeðlisfræðingur og prófessor við Háskóla Íslands, um eldgosið sem hófst í eldfjallinu Calbuco í suðurhluta Síle í fyrradag. Búið er að lýsa yfir neyðarástandi á svæðinu en ekki er vitað um fólk í beinni hættu enn sem komið er.

Þetta er í annað skiptið síðan í mars að stórt eldfjall tekur að gjósa í suðurhluta Síle en hinn 3. mars gaus Villarrica. Það gos stóð ekki lengi en var afar öflugt. Að sögn fjölmiðla í Síle er uppi áætlun um að rýma tuttugu kílómetra radíus frá eldfjallinu en það þýðir brottflutning um fjögur þúsund manns.

Samkvæmt upplýsingum frá flugvallaryfirvöldum í San Jose eru flugbrautirnar þaktar ösku og ljóst að ekki verður hægt að lenda á flugvellinum né heldur taka á loft næstu klukkustundirnar. 

Turrialba  er 3.340 metra hátt og gaus þar síðast í byrjun mars. Þá þurfti að loka flugvellinum í tvo daga. 

Ótrúlegt sjónarspil í tvíburagosi

Turrialba
Turrialba AFP
Turrialba
Turrialba AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert