Fluttu 400 stórhættulega fanga

Lögreglumenn gæta morðvettvangs þar sem átta manns voru skotin til …
Lögreglumenn gæta morðvettvangs þar sem átta manns voru skotin til bana í Quezaltepeque, um 25 km frá San Salvador, í lok síðasta mánaðar. AFP

Mikill viðbúnaður var hjá herliði og lögreglu El Salvador í dag þegar 400 meðlimir í glæpagengjum voru fluttir í öryggisfangelsi í landinu. Aðgerðin er liður í baráttu þarlendra stjórnvalda við glæpagengi í landinu.

Fangelsismálayfirvöld segja fangana vera stórhættulega og að þeir hafi nú verið fluttir í Izalco fangelsið sem er skammt frá San Salvador, höfuðborg landsins. Markmiðið er að koma í veg fyrir að þeir geti átt samskipti við aðra meðlimi glæpagengja og verða þeir undir ströngu eftirliti í fangelsinu.

Forseti landsins, Sanchez Ceren, tilkynnti um flutning fanganna en það er liður í nauðsynlegum aðgerðum stjórnvalda í tilraunum við að berja niður gengjastríð í landinu en glæpagengi hafa meðal annars ráðist á lögreglu og hersveitir. 841 morð voru framin í síðasta mánuði í landinu en þar búa um sex milljónir manna. 

Fyrr í þessari viku voru 1.100 meðlimir glæpagengja fluttir í fangelsisstofnanir til þess að halda þeim frá fjölskyldu þeirra og öðrum meðlimum glæpagengjanna. Þá hefur ríkisstjórn El Salvador einnig hleypt af stað sérstöku verkefni í baráttu við glæpagengin með því að stofna sérstakar lögreglu- og hersveitir sem berjast við gengin.

Tvö hættulegustu glæpagengi landsins, Mara Salvatrucha (MS-13) og Mara 18 (M-18), svöruðu aðgerðum yfirvalda þegar þau sendu frá sér tilkynningu um að morðum verði fækkað.

Yfirvöld áætla að meðlimir í glæpagengjum séu um 70 þúsund talsins, þar af eru 10 þúsund á bak við lás og slá. Gengin tvö voru stofnuð af Salvadorum í Los Angeles og náðu þau með tímanum undirtökum í heimalandinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert