Þrefalda framlög til björgunarstarfa

Leiðtogar Evrópusambandsins hafa samþykkt að þrefalda framlög til leitar- og björgunaraðgerða á Miðjarðarhafi. Þetta var samþykkt á neyðarfundi leiðtoganna í Brussel.

Evrópusambandið mun einnig leita leiða til þess að stöðva og eyða smyglarabátum og senda fjölmennt lið starfsmanna innflytjendaeftirlits til ríkja utan ESB. Nokkur ríki ESB hafa heitið því að senda fleiri björgunarskip og áhafnir á Miðjarðarhaf til þess að taka þátt í eftirliti þar.

Neyðarfundurinn var haldin í kjölfar þess að yfir 750 flóttamenn fórust á leið sinni til Evrópu frá Líbíu á sunnudag. Útför 24 þeirra fór fram í gær á Möltu. 

Samkvæmt frétt BBC hefur fjöldi þeirra sem hafa flúið heimalandið í Miðausturlöndum margfaldast undanfarna mánuði og er talið að yfir 35 þúsund manns hafi komið frá Afríku til Evrópu það sem af er ári. Þar af hafa 1750 farist á flóttanum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert