Búist við þúsundum á götum Baltimore

Baltimore í gærkvöldi.
Baltimore í gærkvöldi. AFP

Búist er við allt að tíu þúsund mótmælendum á götum Baltimore í dag, degi eftir að tilkynnt var að lögreglumennirnir sex sem komu að handtöku Freddie Gray yrðu sóttir til saka, meðal annars fyrir manndráp.

Undanfarna daga hefur mikil óánægja borgarbúa birst í mótmælum og óeirðum á götum borgarinnar. Mótmælin hafa þegar breiðst til annarra borga í Bandaríkjunum. Þjóðvarðliðið í Maryland tilkynnti á Twitter að 3.000 þjóðvarðliðar væru til taks til að „halda friðinn“ í borginni.

Að minnsta kosti 15 voru handteknir í gær þegar nokkrir mótmælendur virtu útgöngubannið í borginni að vettugi, en það hófst klukkan tíu að kvöldi.

Dauði hins 25 ára gamla Freddie Gray í höndum lögreglunnar hefur enn og aftur vakið upp spurningar um framferði lögreglunnar í Bandaríkjunum, sérstaklega hvernig lögreglan háttar samskiptum sínum við blökkumenn. Þannig hafa mótmælin sem byrjuðu í Baltimore breiðst út, meðal annars til New York, Fíladelfíu og Washington, sem er í um klukkustundar akstursfjarlægð frá Baltimore.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert