SeaWorld sektað fyrir lagabrot

Háhyrningurinn Tilikum olli dauða þjálfara SeaWorld árið 2010.
Háhyrningurinn Tilikum olli dauða þjálfara SeaWorld árið 2010. AFP

Skemmtigarðinum SeaWorld hefur verið stefnt fyrir að hafa ekki verndað háhyrningaþjálfara fyrirtækisins með fullnægjandi hætti í garði fyrirtækisins í San Diego. Garðurinn hefur sætt rannsókn eftir að einn háhyrningaþjálfara SeaWorld lést af völdum árásar háhyrnings árið 2010.

Atvinnuöryggis- og heilbrigðisdeild Kaliforníu gaf út fjórar stefnur á hendur SeaWorld og sektaði fyrirtækið um 26 þúsund dali, um 3,5 milljónir króna. Í yfirlýsingu frá SeaWorld Entertainment Inc. segir að stefnurnar séu grundvallarmisskilningur á því hvað þurfti til að sjá um háhyrninga og hyggst fyrirtækið áfrýja stefnunum.

Frétt mbl.is: Græðgi ofar mannslífum í SeaWorld.

Eftir því sem kemur fram í stefnunum hélt SeaWorld starfsmönnum sínum ekki upplýstum um hætturnar sem kunna að fylgja því að umgangast háhyrninga. Krafðist fyrirtækið þess af þjálfurum að þeir skrifuðu undir trúnaðarsamning sem kom að miklu leyti í veg fyrir að þeir gætu tilkynnt hættuástand sem hefði getað skapast. 

Starfsmenn SeaWorld synda enn með háhyrningum í laug garðsins í San Diego þrátt fyrir að þjálfarar hafi ekki verið leyfðir ofan í lauginni í Shamu Stadium í Orlando með háhyrningum frá því að dauðsfallið varð þar árið 2010. 

SeaWorld er einnig stefnt fyrir að hafa ekki þjálfað starfsmenn nægilega vel í umgengni við háhyrninga en stefnurnar eru byggðar á rannsókn sem var gerð hinn 29. október á síðasta ári.

Öryggi í garðinum hefur sætt harðri gagnrýni eftir að þjálfarinn Dawn Brancheau lést árið 2010 þegar háhyrningurinn Tilikum greip hana og togaði í laugina. Í kjölfar rannsóknar á dauða Brancheau var SeaWorld stefnt fyrir að brjóta öryggisreglur á vinnustað. Rannsóknin leiddi í ljós að garðurinn hafði komið í veg fyrir að þjálfarar tilkynntu um hættuástand þegar þeir störfuðu í námund við háhyrninga á sýningum.

Fyrirtækið sagði í yfirlýsingu að síðan þá sé búið að ráðast í umbætur á háhyrningasýningunni. Sett voru hraðfæranleg gólf á laugarbotninn sem geta skilið þjálfara frá háhyrningum á skömmum tíma.

Frétt Yahoo um málið

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert