Byssuhlaup gegn skopmyndum

Lögreglumenn á verði við Bandaríska náttúrusögusafnið í New York á …
Lögreglumenn á verði við Bandaríska náttúrusögusafnið í New York á þriðjudag. Bandaríkjadeild rithöfundasamtakanna PEN veitti á ársfundi sínum í húsinu skoptímaritinu Charlie Hebdo verðlaun fyrir að berjast fyrir tjáningarfrelsi. AFP

Hvenær má nota tjáningarfrelsið til að móðga og særa og hvenær ekki? Sett hafa verið lög um þessi mál en þau geta aldrei verið nægilega skýr, alltaf er hægt að túlka ákvæði þeirra með ólíkum hætti. Fyrsta viðbótin við stjórnarskrá Bandaríkjanna var samþykkt 1791 og þar er skýrt ákvæði um að ekki megi setja lög sem hefti tjáingarfrelsið. Í reynd geta Bandaríkjamenn móðgað og sært hópa eins og múslíma að vild, þeir mega bara ekki hvetja til líkamlegs ofbeldis.

En í mörgum Evrópulöndum, þ.ám. Danmörku, hafa verið sett lög sem setja tjáningarfrelsinu meiri skorður, aðallega gegn svonefndum hatursáróðri. Mörkin eru samt alltaf mjög óljós. Það sem í eyrum eins hljómar eins og argasta móðgun getur verið eins og hver önnur hvöss gagnrýni í eyrum annars. Eða húmor. Og á að banna hann?

Nýlega reyndu tveir íslamistar að gera skotárás á fund í Texas á vegum félags sem efnt hafði til samkeppni um bestu skopmyndina af Múhameð spámanni. Árásin mistókst, lögreglan felldi báða mennina sem sögðust fyrir árásina ætla að verja íslam. Með skotvopnum.

Á þriðjudaginn verðlaunaði Bandaríkjadeild alþjóðasamtaka rithöfunda, PEN, franska skopritið Charlie Hebdo fyrir „hugrekki í tengslum við tjáningarfrelsið“. Mjög öflugur lögregluvörður var á fundinum en allajafna eru þessi fundir þekktari fyrir veisluglaum en pólitík. Sjöunda janúar réðust íslamistar á ritstjórnarskrifstofur blaðsins Charlie Hebdo í París og myrtu 12 manns. Ástæðan var að ritið hafði birt skopmyndir af Múhameð.

Charlie er þekkt fyrir að gera miskunnarlaust gys að öllu og öllum, hvort sem um er ræða þjóðhöfðingja eða trúarleiðtoga. En hefur ritið beitt sér sérstaklega gegn íslam og Múhameð, löngu látnum spámanni? Tveir franskir félagsfræðingar hafa kannað forsíðumyndir blaðsins undanfarin 10 ár, alls 523 síður. Í ljós kom að 485 fjölluðu um stjórnmál, efnahagsmál og slík efni. Trúarbrögð komu við sögu á 38 forsíðum, kristni var aðalefnið á 21 þeirra en íslam aðeins sjö.

Einn af teiknurum Charlie Hebdo segir að þar ríki ekki hatur gegn trú heldur „glaðvært guðleysi“. Og enn síður sé þar verið að hylla rasisma. Margir benda auk þess á að þegar árás á trú sé kölluð rasismi séu menn farnir að blanda illilega saman hugtökum, þau missi á endanum alla merkingu. Kynþáttur ákvarði ekki trú.

En rúmlega 200 af alls um 4.000 félögum PEN í Bandaríkjunum ákváðu samt að hunsa samkomuna á þriðjudag. Þeir segja að ekki sé verið að heiðra tjáningarfrelsið heldur það sem þeir segja að sé skortur á „menningarlegu umburðarlyndi“ hjá Charlie Hebdo, einnig ríki þar hatur á íslam.

Mjótt einstigi

Í nær hundrað ára gömlum sáttmála PEN segir skýrum stöfum að liðsmenn samtakanna heiti því að gera allt sem þeir geti til að berjast gegn hatri milli kynþátta, stétta og þjóða. Þar er líka annað ákvæði: „Félagarnir heita því að berjast gegn hvers kyns hömlum á tjáningarfrelsið“.

Franski sagnfræðingurinn Emmanuel Todd er einn þeirra sem hafa gagnrýnt viðbrögðin í kjölfar morðanna á skrifstofu Charlie Hebdo. Hann segir að mótmælin miklu í París 11. janúar, með þátttöku leiðtoga og stjórnmálamanna frá mörgum löndum, til stuðnings tjáningarfrelsinu hafa verið „hneisa“. Fullyrt hafi verið að í mótmælunum hafi þjóðin, lýðveldið, sameinast um styðja tímaritið. En í reynd hafi aðallega verið á staðnum fulltrúar annars vegar elítu guðleysingja í höfuðborginni og hins vegar kaþólikka af landsbyggðinni sem sögulega séð séu á móti lýðveldinu. Lágstétt múslíma hafi alveg vantað, segir Todd.

Fjórar milljónir manna hafi komið saman til að hylla réttinn til að skrumskæla trú annarra þótt „þessir aðrir séu helstu lítilmagnar samfélagsins“. Hin raunverulega ógn við Frakkland sé ekki múslímar heldur „þessi klikkaða nýja trú sem ég kalla róttæka veraldarhyggju“, segir Todd.

Ráðamenn PEN voru ósammála. „Frá okkar sjónarhóli er hugrekkið aðalatriðið,“ segir Suzanne Nossel, framkvæmdastjóri deildarinnar. „Það gengur ekki að hægt sé að skerða tjáningarfrelsið með byssuhlaupi.“

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert