Starfsfólkið faldi sig í frystiskáp

Mennirnir voru skotnir, lamdir og stungnir.
Mennirnir voru skotnir, lamdir og stungnir. Skjáskot af Twitter

Lögreglumaður sem kom á vettvang skotárásar á milli glæpagengja í Texas í Bandaríkjunum í gær sagði að ummerkin hefðu verið ein þau viðurstyggilegustu sem hann hafi séð á ferlinum.

Lögreglumaðurinn W. Patrick Swanton hefur verið lögreglumaður í 34 ár. Í viðtali lýsti hann því hvernig líkum var stráð um veitingastaðinn ásamt byssum, hnífum, glerbrotum og blóðpollum.

Að minnsta kosti níu manns létu lífið í átökunum en talið er að allt að 200 meðlimir mótorhjólagengja hafi hist á Twin Peaks veitingastaðnum í borginni Waco.

Samkvæmt frétt The Independent hafa um hundrað verið handteknir en átján særðust í átökunum. Fjölskyldur þurftu að flýja verslunarmiðstöðina þar sem veitingastaðurinn er þegar að átökin brutust út. 

Starfsfólk veitingastaðarins þurfti að fela sig í frystiskápum er skotbardaginn gekk yfir. Meðlimir gengjanna voru ýmist skotnir, stungnir og lamdir með kylfum og keðjum.

Átökin hófust um hádegi að staðartíma eftir að rifrildi braust út á salerni staðarins. Þau átök breiddu úr sér inn á staðinn sjálfan og svo á bílastæði hans. 

Talsmaður lögreglunnar í Waco sagði í samtali við fjölmiðla að allir þeir sem létu lífið í gær hafi verið meðlimir Bandidos og Cossack gengjanna. Þau gengi voru meðal þeirra fimm sem höfðu skipulagt fund á veitingastaðnum með fyrrgreindum afleiðingum. 

Lögregla hafði verið látin vita af fundinum og voru lögreglumenn í merktum bílum fyrir utan staðinn. Það stöðvaði byssumennina ekki við það að hefja skothríð. 

Að sögn Swanton skutu lögreglumenn að vopnuðum mönnum til þess að reyna að hindra fleiri dauðsföll. Óljóst er hverjir það voru sem skutu þá sem létu lífið. 

Swanton sagði að það hafi verið kraftaverk að almennir borgarar hafi ekki slasast í átökunum í gær. 

Lögreglan í Waco varaði íbúa borgarinnar við á Facebook og bað fólk um að halda sig frá verslunarmiðstöðinni á meðan tekist var á við „mjög hættulega einstaklinga“.

Að sögn Swanton voru meðlimir gengjanna að funda vegna yfirráðasvæða og skráningu nýliða en gengin sjálf hafa neitað því. Doug Greeness, sem er meðlimur eins gengisins sem hann kallar „fjölskylduvænan mótorhjólaklúbb“ sagði að hópurinn hafi hist til þess að ræða „atriði innan mótorhjólasamfélagsins“.

Yfirmenn á veitingastaðnum vissu jafnframt af fundinum fyrirfram og hefur lögregla gagnrýnt þá fyrir að reyna ekki að stöðva það að svona stór hópur mótorhjólagengja kæmi saman. 

Samkvæmt frétt The Independent en Twin Peaks veitingastaðakeðjan er þekkt fyrir lítið klæddar þjónustustúlkur. Veitingastaðurinn auglýsir sig sem stað með „frábært útsýni“ á heimasíðu sinni. 

Talsmaður höfuðstöðva Twin Peaks í Dallas sagði að staðurinn í Waco gæti misst starfsleyfi sitt og að fyrirtækið væri miður sín að öryggisreglur staðarins hafi verið brotnar. 

Í yfirlýsingu frá staðnum í Waco kemur fram að starfsfólkið sé í áfalli eftir átökin. „Okkar markmið er að skapa öruggt og ánægjulegt umhverfi fyrir viðskiptavini og starfsmenn og við lítum á lögregluna sem félaga okkar í því,“ sagði í yfirlýsingunni. „Yfirmenn staðarins hafa verið í stöðugu sambandi við lögreglu og við munum halda áfram að vinna með þeim til þess að halda ofbeldisglæpum frá starfsemi okkar og samfélaginu.“

Samkvæmt frétt BBC verða að minnsta kosti 192 einstaklingar ákærðir vegna bardagans. Lögregluyfirvöld í Waco sögðu frá því í dag að veitingastaðurinn verði lokaður í að minnsta kosti viku vegna „hættunnar sem hann skapar í samfélaginu“.

Sjónarvottar birtu myndir frá vettvangi á Twitter.

Fyrri frétt mbl.is:

Níu féllu í skotbardaga í Texas

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert