Bannar konum að nota WhatsApp

Ramzan Kadyrov, forseti Tsjetsjeníu.
Ramzan Kadyrov, forseti Tsjetsjeníu. SERGEI KARPUKHIN

Ramzan Kadyrov, forseti Tsjetsjeníu hefur hvatt karla í landinu til að hindra konur sínar frá því að nota snjallsímaforritið WhatsApp. Þetta gerði hann eftir að mikil umræða skapaðist á samskiptamiðlinum í kjölfar þvingaðs hjónabands í landinu. 

„Læsið þær inni, ekki leyfa þeim að fara út, þá munu þær ekki setja neitt þarna inn,“ sagði Kadyrov samkvæmt frétt breska ríkisútvarpsins„Ekki skrifa hluti sem þessa. Karlar, takið konur ykkar út af WhatsApp.

Kadyrov hafði áður sagst styðja umrætt hjónaband lögreglustjóra við 17 ára gamla stúlku, jafnvel þó hann væri þegar giftur, sem braut í bága við rússnesk lög. Hann og stjórn hans hafa lagt til lögleiðingu fjölkvænis í Tsjetsjeníu.

Fjölmiðlar í Tsjetsjeníu sögðu frá því fyrir brúðkaupið sem fór fram á laugardag, að Nazhud Guchigov, 47 ára gamall lögreglustjóri, hefði bannað Kheda Goylabiyeva að yfirgefa heimili sitt og hótað fjölskyldu hennar ef þau gæfu honum hana ekki.

Kadyrov, sem er náinn bandamaður Vladimírs Pútíns forseta Rússlands, er þó sagður hafa gefið sína persónulegu blessun á hjónabandinu. Hann fordæmdi umræðu um hjónabandið á Whatsapp í athugasemdum sem birtar voru í sjónvarpi í landinu. „Hættið. Hagið ykkur eins og tsjetsjenar,“ var haft eftir honum. „Heiður fjölskyldunnar er mikilvægasti hluturinn.“

„Foreldrar stúlkunnar gáfu þessu hjónabandi sína blessun,“ fullyrti hann og sagði fréttir uppfullar af lygum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert