Fórnarlambið handtekið fyrir lygar

Lögregluyfirvöld viðurkenndu bótaskyldu í málinu. Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Lögregluyfirvöld viðurkenndu bótaskyldu í málinu. Myndin tengist fréttinni ekki beint. AFP

Bresk kona fær greidd 20.000 pund í skaðabætur frá lögregluyfirvöldum, eftir að rannsóknarlögregla sakaði hana um að ljúga því að henni hefði verið nauðgað. Konan var 17 ára þegar árásin átti sér stað, í Winchester í apríl 2012.

Móðir konunnar tilkynnti nauðgunina til lögreglu, en sjálf benti konan lögregluþjónum á að hugsanlega væri erfðaefni árásarmannsins að finna á bol sem hún var í þegar árásin átti sér stað.

Flíkin var aldrei send í rannsókn og vikum seinna var konan, sem á við andleg vandamál að stríða, sökum um að ljúga um nauðgunina og handtekin. Á meðan handtökunni stóð sagði rannsóknarlögreglumaður við hana: „Þetta er það sem gerist þegar þú lýgur.“

Samkvæmt Guardian benda gögn í málinu til þess að lögregla hafi komist að þeirri niðurstöðu að konan væri að ljúga tveimur dögum eftir að tilkynnt var um nauðgunina. Lögreglumaðurinn sem fór fyrir rannsókninni sagði þá við lægri settan lögregluþjón: „Fucking nick her.“

Sex mánuðum síðar, eftir að móðir konunnar kvartaði yfir meðferð hennar, tók nýtt teymi við rannsókninni og komst að þeirri niðurstöðu að konan hefði sagt satt. Bolurinn var loks sendur í rannsókn og árásarmaðurinn Liam Foard dæmdur í fangelsi.

Lögregluyfirvöld í Hampshire hafa beðist afsökunar á því hvernig málið var höndlað og viðurkennt bótaskyldu vegna ólögmætrar handtöku og árásar. Þá hafa þau gengist við því að hafa brotið gegn ákvæðum ensku mannréttindalöggjafarinnar.

Fjórir lögreglumenn áttu yfir höfði sér agaviðurlög vegna málsins, en þrír sluppu eftir að þeir ýmist fóru á eftirlaun eða sögðu af sér. Sá fjórði fékk skriflega viðvörun. Yfirmenn lögreglunnar í Hampshire hafa stigið fram í kjölfar málsins og freistað þess að sannfæra fórnarlömb kynferðisofbeldis um að ásakanir þeirra séu og verði teknar alvarlega.

Ítarlega frétt um málið er að finna hjá Guardian.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert