Bróðir Kim Jong-Un klappaði og söng með Clapton

Kim Jong-Chul svaraði engum spurningum blaðamanna.
Kim Jong-Chul svaraði engum spurningum blaðamanna. Skjáskot af Youtube

Bróðir Kim Jong-Un, leiðtoga Norður Kóreu, sást skemmta sér konunglega á tónleikum Eric Clapton í Lundúnum á dögunum. Tónleikagestir lýstu því hvernig Kim Jong-Chul klappaði og dansaði með lögum Clapton, meðal annars smellnum Cocaine.

Sky News segir frá þessu.

Kim var klæddur í bláan stuttermabol, svartan leðurjakka og með sólgleraugu. Japanskir fjölmiðlar náðu myndum af Kim er hann yfirgaf tónleikana sem haldnir voru í Royal Albert Hall. 

Samkvæmt japönsku fréttastöðinni TBS hunsaði hann spurningar fréttamanna um samband hans við bróður sinn og stjórnmál Norður Kóreu. 

Lífverðir Kim reyndu að stöðva fréttamenn í því að taka myndir af honum á meðan kvenkyns förunautur hans gekk rétt fyrir aftan hann. 

Sendiherra Norður Kóreu í Bretlandi, Hyon Hak Bong, var með Kim á tónleikunum. Það vakti athygli í mars þegar hann sagði fréttamanni Sky News að land hans ætti kjarnorkuvopn og myndi nota þeim væri landinu ógnað. 

Sendiherrann kallaði einnig flóttamenn frá landinu „dýr“ og „mannleg úrþvætti“ og hélt því fram að stjórnarmenn Norður Kóreu væru menn sem elskuðu frið. 

Talið er að tónleikarnir í Lundúnum sé í fyrsta skiptið sem Kim Jong-Chul sést opinberlega síðan að bróðir hans tók við sem leiðtogi Norður Kóreu í desember árið 2011. Kim Jong-Chul er 33 ára. Hann sást síðast opinberlega í september 2011, einmitt á tónleikum Eric Clapton. Þeir voru haldnir í Singapúr samkvæmt fjölmiðlum í Suður Kóreu. 

Kim Jong-Un og Kim Jong-Chul eru albræður en móðir þeirra, Kim Jong-Huo, á að hafa verið uppáhalds eiginkona föður þeirra, Kim Jong-Il. 

Samkvæmt Kenji Fujimoto, sem var kokkur Kim Jong-Il í þrettán ár, var Kim Jong-Un valin fram yfir Kim Jong-Chul sem leiðtogi þjóðarinnar, því faðir þeirra fannst ekkert varið í Kim Jong-Chul. Að sögn Fujimoto fannst Kim Jong-Il Kim Jong-Chul haga sér eins og „lítil stelpa“.
Rétt eins og Kim Jong-Un var Kim Jong-Chul nemandi við alþjóðlegan einkaskóla í Sviss stóran hluta æsku sinnar. Hann er talinn vera bestur í ensku í ríkisarfætt Norður Kóreu. Hann á að hafa starfað í áróðursdeild leyniþjónustu landsins. 
Á síðasta ári greindi maltneskur sendierindreki Sky News frá því að Kim Jong-Chul hafi verið við nám í Möltu. Ekki er vitað hvenær hann var þar eða hvað hann var að læra. Það er þó talið að hann hafi verið þar til þess að bæta sig í ensku. 
Á myndbandi hér fyrir neðan má sjá Kim Jong-Chul er hann gengur inn í Royal Albert Hall.

Fyrir áhugasama þá má hér fyrir neðan sjá Eric Clapton flytja lagið Cocaine á tónleikum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert