Alræmdur mafíuforingi náðist loksins

Pasquali Scotti var í felum í 31 ár.
Pasquali Scotti var í felum í 31 ár. AFP

Pasquale Scotti, fyrrum leiðtogi Camorra-mafíunnar á Ítalíu var í dag handtekinn í Brasilíu eftir að hafa verið á flótta undan yfirvöldun í 31 ár.

Hann var á leiðinni með börnin sín í grunnskóla í Recife í Norð-austurhluta Brasilíu þegar lögreglan stöðvaði hann. Hann bað um að fá að koma börnunum í skólann áður en hann yrði handtekinn án vandræða. Hann kom til Brasilíu árið 1986 og heldur því fram að fjölskylda hans þar hafi ekki vitað af fortíð hans.

Það var árið 1983 sem hann flúði Ítalíu fyrst. Strauk hann þar af sjúkrahúsi þar sem hann dvaldist eftir slys. Árið 1984 var hann eftirlýstur um allan heim og árið 2005 var hann dæmdur í lífstíðarfangelsi í landinu í útivistardómi fyrir alls 26 morð.

Eftir að hann kom til Brasilíu útvegaði hann sér nýjar persónuupplýsingar og rak skemmtistað og innflutningsfyrirtæki. Þá hafði hann einnig kosningarétt í landinu að sögn fjölmiðla þar í landi. Interpol náði að lokum að finna út hvar hann var niður komin með því að skoða fingrafara-gagnagrunn sinn.  

Sjá frétt The Guardian

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert