Andleg heilsa Holmes í brennidepli

James Holmes verður mögulega tekinn af lífi.
James Holmes verður mögulega tekinn af lífi. AFP

Réttarhöld yfir James Holmes, sem er ákærður fyrir að hefja skothríð í kvikmyndahúsi í Colorado í Bandaríkjunum í júlí 2012 hafa nú staðið fyrir í fjórar vikur. Má gera ráð fyrir því að réttarhöldin taki um fjóra mánuði.

Fyrstu vikurnar fóru í vitnisburð fórnarlamba Holmes, ástvina þeirra sem létust og lögreglufólks. Samkvæmt frétt Fox News verður þó andleg heilsa Holmes í brennidepli næstu tvær vikurnar og hafa saksóknarar nú boðað tvo geðlækna til yfirheyrslu. Gert er ráð fyrir því að þeir muni segja að Holmes hafi verið með réttu ráði þegar hann framdi glæpinn sem er eitt versta fjöldamorð í sögu Bandaríkjanna.

Brenglaður hugur vegna geðklofa?

Saksóknari í málinu, George Brauchler hefur lofað kviðdóminum að sýna myndbönd af viðtölum geðlæknanna William Reid og Jeffrey Metzner við Holmes. Báðir læknarnir litu svo á eftir viðtölin að Holmes væri andlega veikur en hafi verið heill á geði þegar hann myrti tólf manns og særði sjötíu í kvikmyndahúsinu.

Verjendur Holmes eru ósamála og segja að hugur hans hafi verið það brenglaður vegna geðklofa að hann hafi ekki séð muninn á réttu og röngu. Þeir ætla að boða að minnsta kosti tvo lækna til réttarhaldanna sem tóku viðtöl við Holmes og komust að þeirri niðurstöðu að hann væri alvarlega haldinn af geðsjúkdómi.

Verður þetta í fyrsta skipti sem kviðdómarar í málinu fá að heyra um andlegt ástand Holmes á meðan skotárásin stóð yfir. Talið er að vitnisburðir læknanna muni hafa mikil áhrif á ákvörðun kviðdóms, sem mun þurfa að ákveða hvort að Holmes hafi verið andlega veikur þegar að hann framdi ódæðið. Ef það verður ákvörðun kviðdóms mun Holmes eyða ævi sinni á geðsjúkrahúsi. Saksóknarar vilja þó sanna að Holmes hafi verið heill á geði og vilja að hann verði tekinn af lífi.

Hataði mannkynið

Stílabók sem sýnir áætlanir Holmes um árásina verður jafnframt lögð fram sem sönnunargagn. Holmes notaði stílabókina til þess að lýsa „langvarandi hatri hans á mannkyninu“ eins og Brauchler lýsti því við kviðdómarana.

Geðlæknirinn Lynn Fenton mun einnig bera vitni en hún var geðlæknir Holmes þegar hann var við nám við háskólann í Colorado. Fenton tilkynnti Holmes til lögreglu á háskólasvæðinu eftir að hann sendi henni ógnandi smáskilaboð.

Saksóknarar í málinu hafa kallað til 144 vitni og lagt fram 2.085 gögn til þess að reyna að sanna að Holmes hafi ekki verið andlega veikur þegar hann framdi fjöldamorðið. Í síðustu viku lögðu þeir fram fjárhags- og skattskjöl Holmes frá tímabilinu í kringum skotárásina sem eiga að sýna hversu nákvæmur hann var í öllu sem hann gerði. Eiga þau skjöl að sýna að Holmes hafi vissulega getað aðskilið rétt frá röngu.

Skildi eftir sig 235 byssuholur

Við réttarhöldin bar Brett Mills, rannsakandi hjá alríkislögreglu Bandaríkjanna FBI, vitni. Í vitnisburði Mills kemur fram að í kvikmyndasalnum hafi fundist 235 byssuholur eftir árás Holmes. Tugir byssukúlna fóru í gegnum vegginn og í næsta sal, en þar fundu rannsakendur sextán byssuholur.

Að sögn Mills komu flest skotin frá hægri hlið salarins, ef horft er á skjáinn. Það ýtir undir vitnisburð vitna sem lýstu því hvernig Holmes gekk inn í salinn hægra megin.

Kimber Avra sat í annarri röð salarins. Hún rifjaði upp fyrir dómi hvernig hún heyrði háan hvell hægra megin í salnum. „Ég hélt að einhver hefði sparkað í eða opnað hurðina harkalega,“ sagði Avra fyrir dómi. „Ég leit í áttina að hljóðinu og það var einhver þar sem var klæddur í allt svart.“

Avra rifjaði upp að maðurinn hafi klæðst svörtum stígvélum og með svartan hjálm og gasgrímu. „Þetta leit næstum því út og eins og búningur.“ Avra sá að maðurinn hélt á einhverju, dró úr því tappa og kastaði því inn í salinn. Hún hélt að þetta væri einhverskonar hrekkur þar til hún gerði sér grein fyrir því að salurinn var að fyllast af táragasi. Í kjölfarið hófst skothríð.

„Ég fraus,“ sagði Avra. „Ég náði ekki að meðtaka hvað var í gangi. Þannig að ég sat þarna og starði á hann,“ sagði hún og bætti við að hún hafi líklega verið í um sex metra fjarlægð frá Holmes þegar að vinur hennar dró hana niður í jörðina.

Kevin Quinonez lýsti því fyrir dómi hvernig hann hringdi í neyðarlínuna þegar að skotárásin hófst. Í upptöku sem spiluð var í réttarsalnum má heyra Quinonez hringja en sá sem tekur á móti símtalinu heyrir ekki hvað hann segir vegna skothríðarinnar.

Geðlyf fundust á heimil Holmes

Verjendur Holmes eiga enn eftir að yfirheyra þau vitni sem lifðu af árásina. Þeir yfirheyrðu þó lögreglumann sem skoðaði íbúð Holmes. Rannsóknarlögreglumaðurinn Thomas Wilson gerði upptæka nokkra hluti út íbúð Holmes daginn eftir árásina eins og kvittanir, veggmyndir og bakpoka. Wilson gerði þó líka upptæk lyf sem hann fann í lyfjaskáp íbúðinni. Þar voru meðal annars lyfin sertraline og clonazepam. Sertraline er yfirleitt notað við þunglyndi, þráhyggju og kvíðaköstum. Clonazepam er m.a. notað kvíðaköstum og kvíða. Ekki  liggur fyrir nákvæmlega af hverju læknir Holmes hafi skrifað upp á þessi ákveðnu lyf. Í opnunarræðu verjanda Holmes er því haldið fram að hann hafi verið með geðklofa. Lynne Fenton, fyrrum geðlæknir Holmes, mun bera vitni í réttarhöldunum.

Holmes hafði búið í íbúðinni sem var rannsökuð í fjórtán mánuði þegar hann var handtekin. Joan Leslie Holley, sem á íbúðina, bar vitni og lýsti Holmes sem hljóðlátum og rólegum. Hún sagði að Holmes hafi aldrei verið með nein vandamál og greiddi leiguna alltaf á réttum tíma, stundum fyrir gjalddaga.

Maryalice Arre sem tók á móti ávísunum leigjenda í íbúðarhúsinu í hverjum mánuði sagði við réttarhöldin að Holmes hafi alltaf verið kurteis og með gott viðmót, meira að segja þegar hann greiddi leiguna 29. júní, 2012 aðeins þremur vikum fyrir árásina. „Ég man að hann gekk inn og hafði breytt um hárlit. Það var appelsínugult og ekki eins snyrtilegt og venjulega. Það var svolítið vilt,“ rifjaði Arre upp. „Ég sagði James, þú breyttir hárlitnum þínum! Hann bara svaraði „Ó já“. Hann gerði ekki mikið mál úr því.“

Arre var jafnframt spurð hvort hún hafi orðið vör við breytingu á Holmes fyrir utan hárlitin. Hún svaraði því neitandi.

Sótti um atvinnuleysisbætur

Í júní 2012 sótti Holmes um atvinnuleysisbætur. Hann var hættur í meistaranámi en hann hafi verið í fullu starfi í háskólanum í Colorado. Jeremy Phelps, sem er yfir rannsókninni hjá FBI, sagði fyrir dómi að Holmes hafi fyllt út umsókn um atvinnuleysisbætur 14. júní 2012. Á umsóknina skrifaði Holmes að hann hafi þénað um 2,200 bandaríkjadali (297 þúsund íslenskar krónur miðað við gengi í dag) á mánuði fyrir fjörtíu vinnustundir á viku.

Á umsókninni kemur fram að Holmes hafi hætt daginn áður en hann fyllti út umsóknina. Ástæðan fyrir því var samkvæmt umsókninni til þess að sinna öðrum áhugamálum og ástríðum. Á Holmes einnig að hafa sagt að skyldur hans í starfinu væru of félagslegar fyrir sig sem kallaði sig feiminn á umsókninni.

Frétt CNN um málið.

Frétt Fox News um málið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert