Hjónaband samkynhneigðra „ósigur fyrir mannkynið“

Írar fagna niðurstöðunum á laugardag.
Írar fagna niðurstöðunum á laugardag. AFP

Á laugardag samþykktu Írar að lögleiða hjónaband samkynhneigðra með 62% atkvæða í vel sóttri þjóðaratkvæðagreiðslu. Írsku þjóðinni hefur verið hrósað í hástert af unnendum mannréttinda um allan heim en Vatíkanið hefur hinsvegar sagt breytinguna á írsku stjórnarskránni „ósigur fyrir mannkynið“. Þessu greinir BBC frá.

Kardínálinn Pietro Parolin, utanríkisráðherra Vatíkansins, sagði niðurstöðuna hryggja sig. Sagði hann ljóst að kirkjan þyrfti að bæta aðferðir sínar við að breiða út boðskap kristinnar trúar. „Kirkjan þarf að taka þennan raunveruleika í reikninginn en á þá vegu að það styrki hollustu sína við útbreiðslu kristni,“ sagði Parolin. „Ég held að við getum ekki aðeins talað um ósigur gagnvart grundvallarreglum kristindóms heldur ósigur fyrir mannkynið,“ hélt hann áfram. „Fjölskyldan verður áfram í miðið og við þurfum að gera allt sem við getum til að vernda og hygla henni.“

Yfirlýsingar  Parolin eru um margt á skjön við það sem Frans Páfi hefur sagt um samkynhneigð sem lét hafa eftir sér stuttu eftir að hafa tekið við embætti „Ef einstaklingur er samkynhneigður og leitar guðs og hefur góðan vilja, hver er ég til að dæma hann?“

Í kjölfar þjóðaratkvæðagreiðslunnar kallaði erkibiskupinn í Dublin, Diarmuid Martin, eftir því að kirkjan legðist í að kynna sér raunveruleikann í öllu sínu veldi með svokölluðu „reality check“. Sagði hann írska kirkju þurfa að endurnýja tengsl sín við ungt fólk en niðurstöður írsku kosninganna hafa ýtt undir kröfur um svipuð réttindi fyrir fólk á Ítalíu, í Þýskalandi og á Norður Írlandi.

Talið er líklegt að fyrstu hjónaböndin á Írlandi milli tveggja einstaklinga af sama kyni verði innsigluð með kossum snemma í haust. Hjónaband samkynhneigðra er nú löglegt í 20 löndum um allan heim.

Þessi stuðningsmaður hjónabands samkynhneigðra bauð öllum í brúðkaup þegar úrslitin …
Þessi stuðningsmaður hjónabands samkynhneigðra bauð öllum í brúðkaup þegar úrslitin urðu ljós. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert