Heitir að frelsa alla gíslana

Muhammadu Buhari, hinn nýkjörni forseti Nígeríu, hét því í ræðu þegar hann sór embættiseið í gær að hann myndi leggja sig allan fram við að leysa vandamál þjóðar sinnar. Gaf hann fyrirheit um að efla baráttuna gegn hinum illræmdu samtökum Boko Haram og stöðva ofbeldisaðgerðir þeirra.

Buhari, sem er 72 ára gamall, var kjörinn forseti í sögulegum kosningum í apríl. Hann kvaðst gera sér grein fyrir því að verkefnin væru risavaxin en stjórn hans mundi ekki unna sér hvíldar fyrr en hún hefði náð árangri. Hann gagnrýndi Boko Haram harðlega og sagði þau eins langt frá íslam og hugsast gæti.

Liðsmenn þeirra væru skeytingarlausir guðleysingjar.

Þá lofaði forsetinn að beita sér fyrir frelsun allra þeirra þúsunda gísla sem væru í höndum samtakanna, en á meðal þeirra eru 219 skólastúlkur sem rænt var í bænum Chibok í apríl í fyrra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert