Brjóta ástarlása og hjörtu í leiðinni

París er þekkt sem borg elskenda en í dag hófst vinna við að fjarlægja hina frægu ástarlása af brúm í borginni. Mörg þúsund pör hafa síðustu ár fest lása á brýrnar til að innsigla með táknrænum hætti ást sína. Í kjölfarið hafa þau svo hent lyklinum í ánna Signu.

Opinberir starfsmenn í gulum vestum tóku til við það snemma í morgun að klippa lásana af Pont des Arts. Margir forvitnir vegfarendur fylgdust með.

Að festa lása úr járni á brýrnar kann að þykja rómantískt en verknaðurinn hefur að sama skapi valdið borgaryfirvöldum miklum höfuðverk. 

Á síðasta ári hrundi m.a. hluti Pont des Arts brúarinnar vegna þunga lásanna. Ástfangið fólk lét það ekki stoppa sig og fór að festa lásana á aðrar brýr borgarinnar.

Og nú voru borgaryfirvöld komin með nóg. Talið er að um 45 tonn af lásum séu á brúnni. 

„Þetta er list fólksins,“ segir einn ferðamaður í sem horfði á starfsmennina taka lásana af brúnni í morgun. „Það var svo fallegt við þetta.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert