Hyggjast fresta greiðslunni

Yanis Varoufakis, fjármálaráðherra Grikklands.
Yanis Varoufakis, fjármálaráðherra Grikklands. AFP

Stjórnvöld í Grikklandi hafa tilkynnt að þau hyggist fresta 300 milljón evra greiðslu sem er á gjalddaga á morgun. Til standi að sameina fjórar greiðslur sem Grikkland þarf að standa skil á til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í eina, sem verður gerð upp 30. júní næstkomandi.

Lánareglur AGS heimila útspil Grikkja, en það hefur komið mjög á óvart, sérstaklega í ljósi þess að tilkynnt var um tilhögunina örfáum klukkustundum eftir að Christine Lagarde, framkvæmdastjóri sjóðsins, sagði að hún gerði ráð fyrir að Grikkland myndi standa í skilum á morgun.

Fyrrnefnd regla nær eingöngu til þeirra tilvika þegar tæknilegar ástæður gera ómögulegt að skipta greiðslum upp. Ákvörðun Grikkja þykir til marks um hversu alvarlegt ástand mála raunverulega er.

Yanis Varoufakis, fjármálaráðherra Grikklands, sagði í samtali við Sky News í dag að landið hefði frest til 30. júní til að standa skil á greiðslum. Þá rennur samkomulag ríkisins við lánadrottna út. Hann viðurkenndi að sú myndi renna upp að lokum að Grikkland gæti ekki lengur greitt af skuldum sínum.

Varoufakis sagði einnig að lausafjárkreppa landsins væri tilbúningur lánadrottna sem miðaði að því að þvinga Grikki til að viðhalda ríkjandi ástandi. Hann sagðist þó hafa trú á því að Evrópa myndi að lokum gera hið rétta í málinu.

Guardian sagði frá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert