11 fótboltabullur dæmdar til dauða

Dómstóll í Egyptalandi hefur staðfest dauðadóm yfir 11 fótboltabullum vegna uppþots á leikvangi í borginni Port Said í febrúar árið 2012. 74 létust í uppþotinu.

Átök brutust út á leikvanginum er aðdáendum heimaliðsins, Al-Masry og gestanna frá Kaíró, Al-Ahly, lenti saman. Mennirnir ellefu voru dæmdir til dauða í apríl en þeir eru allir áhangendur Al-Masry-liðsins. Í dag staðfesti svo æðri dómstóll í Kaíró niðurstöðuna, eftir að hafa ráðfært sig við túlkanda íslamskra laga, sem gegnir ráðgjafahlutverki í dómsmálum.

Frétt mbl.is: 74 létust og hundruð særðust

Lögreglustjórinn í Port Said var dæmdur í fimm ára fangelsi sem og tveir stjórnarmenn hjá Al-Masry-fótboltafélaginu. 21 var sýknaður, m.a. sjö lögreglumenn.

Enn er hægt að áfrýja dómnum.

„Þeir sýknuðu lögregluna sem skipulagði allt,“ segir móðir eins þeirra sem lét lífið í átökunum. „Það var lögreglan sem læsti börnin okkar inni á leikvanginum.“

Í febrúar á síðasta ári ákvað áfrýjunardómstóll að réttað skyldi að nýju í málinu en þá hafði 21 maður verið dæmdur til dauða vegna málsins.

Í kjölfar uppþotsins á fótboltavellinum urðu átök og mótmæli í Kaíró. Í þeim létust sextán til viðbótar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert