„Ef þið gangið í Nató verðið þið að taka afleiðingunum“

Pútín á að hafa fullvissað Tatarintsev um að það hefði …
Pútín á að hafa fullvissað Tatarintsev um að það hefði afleiðingar fyrir Svía ef þeir gengju í Nató. AFP

Viktor Tatarintsev, sendiherra Rússlands í Svíþjóð, segir í viðtali við Dagens Nyheter í dag að það fái afleiðingar ef Svíar ganga í Nató. Segir hann Vladimír Pútín hafa fullvissað sig um það.

Samband Rússa og Vesturlanda hefur farið stirnandi undanfarin misseri og hefur umræða sprottið upp í Svíþjóð hvort rétt sé fyrir þjóðina að ganga í bandalagið. 

Í viðtalinu er Tatarintsev, sendiherra Rússlands: „Ég held það muni ekki gerast á næstunni að Svíar gangi í bandalagið, þótt umræðan sé að aukast. En ef það gerist, myndi það hafa afleiðingar. Pútín hefur sjálfur talað um það og munu Rússar þurfa að bregðast við hernaðarlega. Okkar hersveitir og flugvopn verða þá færð á nýja staði. Allar þjóðir sem ganga í Nató verða að átta sig á afleiðingunum.“

Aðspurður um hvað hann vilji segja við þá Svía sem finnst ógn stafa af Rússum í norðri segir Tatarintsev: „Hver ógnar hverjum? Skoðið útgjöld til hernaðarmála hjá Rússum annars vegar og Bandaríkjamönnum hins vegar. Rússar eyða 60 milljörðum Bandaríkjadala en Bandaríkjamenn 750 milljörðum. Þrettán sinnum hærri fjárhæð. Þið getið sjálf dregið ályktanir af þessu.“

Á síðasta ári kom upp mál sem varð ekki til þess fallið að bæta samskipti Rússa og Svía þegar sænska landhelgisgæslan gerði mikla leit af meintum rússneskum kafbáti sem einhverjir töldu sig hafa séð í sjónum fyrir utan Stokkhólm. 

Í lok maí voru svo sænskar herflugvélar sendar í lofthelgigæslu nálægt Öland þar sem tvær rússneskar herflugvélar voru á sveimi. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert