Var morðinginn með réttu ráði?

James Holmes verður mögulega tekinn af lífi.
James Holmes verður mögulega tekinn af lífi. AFP

Verjendur James Hol­mes, sem hóf skot­hríð á gesti kvik­mynda­húss í Col­orado í Banda­ríkj­un­um árið 2012, byrjuðu að flytja mál sitt fyrir dómi í gær. Vonast þeir til að geta sýnt fram á að hann hafi ekki verið með réttu ráði þegar hann framdi voðaverkið og að vegna and­legra veik­inda geti hann ekki aðskilið rétt og rangt.

Verjendurnir munu einblína á læknisfræðilegt mat á Holmes fremur en andlegt ólíkt saksóknurum sem hafa látið gera ítarlegt andlegt mat á Holmes og kallað fram fjölda vitna síðustu tvo mánuði. Þar á meðal nokkra sem lifðu árásina af en eru enn að eiga við eftirköstin. Verjendurnir hyggjast eyða fjórfalt minni tíma í sinn vitnisburð og munu reyna að koma í veg fyrir að Holmes verði dæmdur til dauða eða sendur í fangelsi. 

Andlega veikur eða skipulagður morðingi?

Hol­mes hef­ur viður­kennt að hafa myrt tólf manns í kvik­mynda­húsi í Col­orado í júlí 2012. Verj­end­ur Hol­mes reyna að halda því fram að hann hafi ekki verið með réttu ráði þegar að hann framdi voðaverkið og að vegna and­legra veik­inda geti hann ekki aðskilið rétt og rangt. Sak­sókn­ar­ar reyna hins veg­ar að sanna það að Hol­mes sé sak­hæf­ur og að hann hafi vitað hvað hann var að gera þegar voðaverkið var framið. Þeir vilja að hann verði færður á geðsjúkra­hús, en sak­sókn­ar­ar vilja hins veg­ar að hann verði dæmd­ur til dauða. 

Fyrsta vitni sem verjendurnir kölluðu til var Jason Frank, hjúkrunarfræðingur sem starfaði í Arapahoe fangelsinu þar sem Holmes var vistaður eftir árásina. Sýnt var myndband af því þegar Holmes skallaði vegg og datt í gólfið í fangelsinu, en eftir atvikið var hann sendur á sjúkrahús. Saksóknarar spurðu Frank ítarlega um upplifun hans af Holmes, og sagði hann Holmes hafa verið frekar taugaóstyrkan þegar hann kom í fangelsið en slík viðbrögð væru eðlileg hjá nýjum föngum. Spurður hvort Holmes hafi sýnt hegðun sem var óvenjuleg sagði Frank „ekkert sem ekki var eðlilegt.“

Fjöldi geðlækna meta geðheilsu Holmes

Þá kölluðu verjendurnir til geðlækni sem tók viðtöl við Holmes nokkrum vikum eftir árásina. Áður en Dr. Jonathan Woodcock hóf mál sitt eyddu saksóknarar hins vegar rúmum klukkutíma í að spyrja út í trúverðugleika hans sem geðlæknis. Bentu þeir á að geðrof væri ekki hans sérsvið og að hann hefði aðeins einu sinni borið vitni í sakamáli á síðustu 15 árunum.

Woodcock var annar tveggja geðlækna sem munu bera vitni fyrir verjendur Holmes og segja að Holmes hafi ekki verið með réttu ráði þegar árásin var framin. Tveir aðrir geðlæknar, William Reid og Jef­frey Metzner, sem tóku viðtöl við Holmes mánuðina eftir árásina komust hins vegar að þeirri niðurstöðu að hann hefði verið heill á geði.

Missti sex ára gamla dóttur sína í árásinni

Á föstudag kölluðu saksóknarar til sitt síðasta vitni, Ashley Moser. Hún missti sex ára gamla dóttur sína í árásinni, og ófætt barn sitt en sjálf er hún bundin við hjólastól eftir að hafa orðið fyrir skoti úr byssu Holmes.

Hún kom fyrir dóminn í hjólastól sínum og lýsti upplifun sinni af árásinni, sem hún segist hafa haldið að væri grín í upphafi. Hún lýsti því hvernig hún fékk skot í bringuna og féll niður ofan á dóttur sína. Hún lá á sjúkrahúsi að berjast fyrir lífi sínu í tvo daga áður en hún fékk að vita örlög dóttur sinnar. 

Holmes sat hinum megin í dómsalnum og leit aldrei á Moser á meðan hún talaði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert