1.200 fangar sleppa í Jemen

Mikil óöld ríkir í Jemen. Mynd úr safni.
Mikil óöld ríkir í Jemen. Mynd úr safni. AFP

Um 1.200 fangar, þar á meðal grunaðir liðsmenn al-Qaeda, flúðu í dag úr fangelsi í Jemen. BBC hefur þetta eftir yfirvöldum í landinu.

Átök brutust út í fangelsinu í bænum Taiz áður en fangarnir brutust út. Mikil óöld ríkir nú í Jemen, þar sem tvær fylkingar berjast um völdin í landinu.

Óöldin hófst þegar uppreisnarmenn hröktu Abdrabbuh Mansour Hadi á flótta til Aden, hvaðan hann flúði svo til Sádí Arabíu.

Ekki er vitað hvernig föngunum tókst að sleppa. Jemenska ríkisfréttastofan Saba hafði eftir stjórnvöldum að vígamenn al-Qaeda hefðu gert áhlaup á fangelsið.

Reuters hefur hins vegar eftir öðrum heimildum innan stjórnkerfis landsins að fangarnir hafi flúið eftir átök vígasveita í landinu.

Fréttastofan AP segir fangaverði hafa flúið eftir að átök brutust út í nágrenni við fangelsið. Flóttinn úr fangelsinu er þriðji stóri flóttinn úr jemensku fangelsi síðan loftárásir Sádí Araba hófust á landið 26. mars.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert