Týndur maður kominn í leitirnar

Talið er að maðurinn hafi verið í felum í Queensland …
Talið er að maðurinn hafi verið í felum í Queensland í fimm ár. AFP

Bandarískur ferðamaður sem hvarf í norðurhluta Ástralíu fyrir fimm árum er fundinn á lífi. Lögreglan fann manninn við rannsókn á innbroti. Maðurinn, Kenneth Rodman, sást síðast árið 2010 þegar hann var á leið á ströndina en kajak mannsins fannst mánuði síðar á kafi í sjónum. 

Rodman var nýlega handtekinn af lögreglu og játaði hann að vera á lista yfir horfið fólk í landinu. Talið er að hann hafi verið í felum í skóglendi norður af Queensland í fimm ár. Ekki er vitað hvort hann naut aðstoðar eða af hverju hann valdi að hverfa. Maðurinn verður fluttur til Bandaríkjanna innan tíðar.  

Ekki er langt síðan annað mannhvarfsmál á svæðinu var leitt til lykta. Dennis „Lee“ Lafferty rak fyrirtæki í Queensland í Ástralíu í 28 ár, eða þar til hann lést í bílslysi í lok maí á þessu ári. Í ljós kom að Lafferty var í raun Raymond Grady Stansel en talið var að hann hefði verið látinn í fjörutíu ár.

Stansel var handtekinn árið 1974 fyrir að smygla meira en 12 tonnum af maríjúana til Flórída. Hann var látinn laus gegn tryggingu. Réttarhöld fóru aldrei fram í málinu þar sem lögfræðingur hans sagði hann hafa horfið snemma árs 1975 þegar hann var við köfun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert