Vilja fyrirgreiðslu í tvö ár

Grísk stjórnvöld fóru í dag formlega fram á björgunaráætlun til tveggja ára af hálfu Evrópusambandsins vegna efnahagserfiðleika Grikklands. Í tilkynningu frá gríska forsætisráðuneytinu er vísað í björgunarsjóð sambandsins í því sambandi sem komið var á fyrir nokkrum árum þegar erfiðleikarnir á evrusvæðinu stóðu hvað hæst.

Fram kemur ennfremur í tilkynningunni að markmiðið sé að gera Grikklandi mögulegt að standa undir fjárhagslegum þörfum sínum og að samhliða því fari fram endurskipulagning skulda landsins. Grísk stjórnvöld staðfestu fyrr í dag að þau myndu ekki standa við afborgun af lánum frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum í dag sem hljóðar upp á 1,6 milljarð evra.

Viðræður undanfarna mánuði um skuldavanda Grikkja hafa ekki skilað árangri. Upp úr slitnaði fyrir helgi og í kjölfarið boðaði forsætisráðherra Grikklands, Alexis Tsipras, til þjóðaratkvæðagreiðslu um skilyrði alþjóðlegra lánadrottna landsins fyrir frekari lánveitingum sem fram á að fara á sunnudaginn.

Yfirvofandi er grískt greiðsluþrot standi Grikkir ekki við skuldbindingar sínar og er óttast það verði það niðurstaðan gæti Grikkland verið á leið út af evrusvæðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert