Gáfu ungbarni heróín og kókaín

Kayleigh Mae Cassell.
Kayleigh Mae Cassell.

Ung kona og maður hafa verið ákærð eftir að 13 mánaða gömul dóttir konunnar lést úr of stórum skammti af heróíni og kókaíni. Er fólkið talið hafa vísvitandi gefið barninu fíkniefni mánuðum saman.

Móðirin, 27 ára gamla Rachel Ball, og fyrrverandi kærasti hennar, 34 ára gamli Joshua Bennett, voru í gær ákærð fyrir morð af annarri gráðu. Parið er ekki talið hafa ætlað sér að myrða barnið, en lögregla segir þau hafa sýnt gríðarlegt dómgreindarleysi og skeytingarleysi til mannlegs lífs.

Ball og Bennett standa einnig frammi fyrir ákærum fyrir að hafa reynt að falsa sönnunargögn, en þau böðuðu stúlkuna, skiptu um bleyju á henni og klæddu hana í ný föt eftir að hún lést.

Stúlkan lést þann 22. febrúar á þessu ári á heimili í smábænum Kingsbury í New York fylki þar sem Bennett dvaldi.

Réttarmeinafræðingurinn Michael Sikirica segir stúlkuna hafa látist út lungnabólgu og öndunarbilun sem stafi af bráðaeitrun fyrir heróíni og kókaíni. Hann segir lungnabólguna hafa stafað af margra mánaða fíkniefnanotkun.

Bennett var leiddur fyrir dómara í gær og lýsti þar yfir sakleysi sínu, en Bell verður leidd fyrir dómara í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert