Hundur bjargaði lífi eiganda síns

Rambo var glæsilegur hundur.
Rambo var glæsilegur hundur. Skjáskot af vef 9NEWS.

Tryggur hundur að nafni Rambo bjargaði lífi eiganda síns um helgina þegar hann varði hann fyrir eldingu. Eigandi Rambo, Jonathan Hardman, gekk ásamt hundinum og fleirum upp Bierstadt-fjall í Colorado í Bandaríkjunum um helgina. Þegar hópurinn gekk niður fjallið breyttist veðrið skyndilega.

Hardman var við hliðina á Rambo, sem er þýskur fjárhundur, þegar þeir urðu fyrir eldingu. Hardman missti meðvitund en hundurinn drapst. „Ég var að hjálpa hundinum mínum niður og segja honum að hoppa til mín en það næsta sem ég veit er að ég vakna og ég get hvorki hreyft hendur né fætur,“ sagði hann í samtali við 9NEWS. „Ég leit upp og sá Rambo bara liggja þarna.“

Hardman slasaðist alvarlega þegar hann varð fyrir eldingunni en komst samt niður fjallið. Þegar á sjúkrahús var komið sögðu læknar honum að hann hefði líklega dáið ef Rambo hefði ekki verið við hliðina á honum. Rambo varð fyrir stærri hluta eldingarinnar en eigandinn og drapst í kjölfarið.

„Hann var við hliðina á mér. Og að öðrum kosti gæti ég hafa orðið fyrir allri eldingunni,“ sagði Hardman.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert