„Samkomulag mun nást“

Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikklands.
Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikklands. AFP

Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikklands, segir „100 prósent líkur“ vera á því að samkomulag náist við alþjóðlega lánardrottna ríkisins eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna á sunnudag. Þetta sagði hann í samtali við breska ríkisútvarpið í gær.

„Samkomulag mun nást hvort sem niðurstaða kosninganna verður „já“ eða „nei“,“ sagði Tsipras. „Ef niðurstaðan verður „já“ þá verður það slæmt samkomulag, og bankarnir verða opnaðir við það slæma samkomulag. En ef niðurstaðan verður „nei“ munum við ná raunhæfu samkomulagi, á sömu nótum og tillögur okkar síðustu daga.“

Sjá einnig: Evrópa bíður átekta - samantekt

Tsipras hefur gefið í skyn að hann muni mögulega segja af sér ef niðurstaða kosninganna verður „já“ en hefur þó einnig sagt að hann vilji framfylgja vilja þjóðarinnar, jafn­vel þótt hann gangi gegn því sem ráðherr­ann hef­ur bar­ist fyr­ir.

Þá sagði Yan­is Varoufa­k­is, fjár­málaráðherra Grikk­lands, í gær að hann myndi frek­ar „skera af sér hand­legg­inn“ en sitja áfram í embætti ef Grikk­ir kjósa að ganga að skil­mál­um lána­rdrottna rík­is­ins í þjóðar­at­kvæðagreiðslunni.

Skoðanakann­an­ir hafa ekki gefið af­drátt­ar­lausa vís­bend­ingu um úr­slit­in en ein könn­un sem lekið var í dag benti til þess að 44,8% hygðust kjósa já en 43,4% nei. Gera má því ráð fyrir jöfnum slag, og hefur þegar verið efnt til kosningavöku hjá báðum pólum.

Grikk­land varð á þriðju­dag fyrsta þróaða ríkið sem stend­ur ekki skil á skuld­bind­ing­um sín­um við Alþjóðagjald­eyr­is­sjóðinn (AGS), þegar rík­is­sjóður Grikk­lands greiddi ekki einn og hálf­an millj­arð evra, sem Grikk­land átti að greiða.

Í síðustu viku slitnaði upp úr samn­ingaviðræðum grískra stjórn­valda við lán­ar­drottn­ana eft­ir út­spil Tsipras, sem ákvað að boða til þjóðar­at­kvæðagreiðslunn­ar. Í kjöl­farið fóru að mynd­ast biðraðir við gríska hraðbanka og hafa marg­ir millj­arðar evra verið tekn­ir út úr hraðbönk­um og bönk­um í land­inu á und­an­förn­um vik­um. 

Þá ákvað rík­is­stjórn Grikk­lands að bank­ar þar í landi yrðu lokaðir alla vik­una, sem liður í aðgerðum til þess að koma í veg fyr­ir end­an­legt hrun í gríska efna­hags­kerf­inu. Ákvörðunin kom í kjöl­far þess að bankaráð Evr­ópska seðlabank­ans til­kynnti um helg­ina að neyðarlausa­fjáraðstoð, sem grísku bank­arn­ir hafa reitt sig á til að halda sér á floti, yrði haldið óbreyttri en ekki auk­in. Óviss­an olli einnig greiðslu­falli.

Þá hafa fjár­málaráðherr­ar evru­ríkj­anna gefið út að frek­ari viðræður um skulda­vanda Grikk­lands muni ekki fara fram fyrr en að afstaðinni þjóðar­at­kvæðagreiðslunni.

AFP
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert