„Hafsjór þjáninga“

Mínútu þögn var haldin í dag við St. Paul's kirkjuna í London í dag til að minnast þeirra sem létust í hryðjuverkaárásinni á borgina fyrir tíu árum síðan.

Að þögninni lokinni hélt biskupinn í London hjartnæma ræðu þar sem hann gerði að umtalsefni sínu hinn stóra „hafsjó þjáninga“ sem árásin hafði í för með sér. Útskýrði biskupinn hvernig árásin hafði áhrif á fólk um allan heim. „Skömmu eftir árásina létu aðstandendur hinna látnu útbúa minningarbók um fórnarlömb árásarinnar.“

„Bókin sýndi hluta þess hafsjó þjáninga sem andlát hvers og einasta fórnarlambs hafði í för með sér. Bókin sýnir líka vel hvers konar samheldið samfélag býr hér í London. Flest fórnarlambanna voru ung og áttu rætur sínar að rekja víðs vegar um heiminn. London er stórkostleg borg,“ sagði biskupinn.

Kertaljósum var dreift um vettvang árásarinnar og var hjálparstarfsfólkið sem aðstoðaði fórnarlömb árásarinnar viðstatt athöfnina, þar á meðal strætóbílstjórinn sem ók strætónum sem varð fyrir árásinni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert