Húsleit gerð hjá „Subway Jared“

Hér má sjá Jared með gömlu buxurnar sem hann klæddist …
Hér má sjá Jared með gömlu buxurnar sem hann klæddist þegar hann var sem þyngstur. Skjáskot af Youtube

Húsleit var gerð á heimili Jared Fogle, talsmanni Subway í morgun. Myndbandsupptaka sem tekin var í þyrlu sjónvarpsstöðvarinnar WTHR sýnir hvernig lögreglubílar og lögreglumenn umkringdu hús Fogle í Indianapolis í Bandaríkjunum.

Samkvæmt frétt NBC voru gerð upptæk raftæki af heimili Fogle, þar á meðal tölva. Á einum tímapunkti steig Fogle út úr húsinu og inn í bíl fyrir utan.

Húsleitin er gerð kjölfar handtöku Russell Taylor, sem er framkvæmdarstjóri góðgerðarsamtaka Fogle, The Jared Foundation. Taylor var handtekinn í apríl og ákærður fyrir varðveislu barnakláms. Á þeim tíma sagðist Fogle vera í áfalli vegna málsins og að samtökin myndu slíta öll tengsl við Taylor. The Jared Foundation berst gegn offitu barna.

Margir muna eftir Fogle úr Subway auglýsingum fyrir um fimmtán árum síðan. Árið 1998 vó Fogle 192 kíló og var þyngd hans að valda honum alvarlegum heilsufarsbrestum. En hann ákvað að breyta lífstíl sínum og borðaði að mestu leyti Subway samlokur. Hann sleppti morgunmat og borðaði í staðinn í hádeginu litla Subway samloku með kalkúnakjöti og stóra með grænmeti. Með þessu borðaði hann kartöfluflögur og drakk sykurlaust gos. Á einu ári missti hann 111 kíló og birtist hann í fjölmörgum Subway auglýsingum í kjölfarið.

Umfjöllun CBS um Jared Fogle frá árinu 2004. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert