Ræddi samkynhneigð í óþökk leiðtoga

Barack Obama Bandaríkjaforseti sagði í dag að skilaboð hans til Afríku væru að ríki ættu ekki að mismuna fólki á grundvelli kynhneigðar. Forsetinn er staddur í opinberri heimsókn í Kenía, þar sem faðir hans var fæddur og uppalinn, en á blaðmannafundi með Uhuru Kenyatta, forseta landsins, sagði hann að slæmir atburðir ættu sér stað þegar stjórnvöld kæmu fram við fólk með mismunandi hætti.

Obama sagði að þegar fólki væri mismunað væri það til að grafa undan frelsi og að þegar stjórnvöld legðu það í vana sinn að mismuna fólki væri hætt við að það smitaði út frá sér.

Fjöldi stjórnmálamanna og trúarleiðtoga í Kenía hafði varað Obama við því að því yrði ekki vel tekið ef hann tjáði sig um réttindi samkynhneigðra í heimsókn sinni. Í Kenía er samkynhneigð ólögleg og varðar allt að 14 ára fangelsi.

Kenyatta sagði að Kenía og Bandaríkin ættu mörg gildi sameiginleg en væru ekki sammála um allt. Hann sagði að réttindi samkynhneigðra væri ekki málefni er varðaði þjóðina og það væri erfitt að þvinga einhverju upp á fólk sem það hefði ekki trúa á.

Varaforseti Kenía, William Ruto, sagði í maí sl. að það væri ekkert „pláss“ fyrir samkynhneigða í Kenía.

Obama og Kenyatta ræddu fjölda málefna á blaðamannafundinum. Obama sagði að ríkin þyrftu að vinna náið saman gegn hryðjuverkasamtökunum al-Shabaab, en þau stóðu að baki árásinni í Westgate verslanamiðstöðinni þar sem 67 voru myrtir.

Kenyatta sagði að fyrir kenísku þjóðina væri baráttan tilvistarlegs eðils.

Obama sagði að honum hefði þótt jákvætt hvernig kollegi sinn hefði talað um þörfina á að uppræta spillingu í landinu, en spilling væri eitt þeirra atriða sem gæti hægt á hagvexti og framþróun.

Hann sagði hins vegar einnig að Bandaríkin hefðu áhyggjur af því ofbeldi sem braust út í kjölfar kosninganna 2007. Kenyatta var ákærður fyrir Alþjóðaglæpadómstólnum vegna þess, en málið gegn honum var látið niður falla. Dómstóllinn hefur hins vegar ennþá til umfjöllunar mál gegn varaforsetanum Ruto.

Ítarlega frétt um blaðamannafundinn má finna hjá Guardian.

Forsetarnir yfirgefa sviðið eftir blaðamannafundinn.
Forsetarnir yfirgefa sviðið eftir blaðamannafundinn. AFP
Obama á ættir sínar að rekja til Kenía en þetta …
Obama á ættir sínar að rekja til Kenía en þetta er fyrsta opinbera heimsókn hans síðan hann tók við embætti. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert