Skaut mann sem reyndist raðmorðingi

Neal Falls.
Neal Falls.

Þegar kona í Charleston í Vestur-Virginíu opnaði útidyrnar til að taka á móti ókunnugum manni sem hún hafði kynnst á netinu, vissi hún þegar í stað að hún væri í lífshættu. „Dauðann eða lífið,“ sagði maðurinn og beindi byssu að kviði konunnar. Næstu tíu mínúturnar voru hryllilegar. Maðurinn greip um háls konunnar og dró hana um húsið. En hræðsla hennar varð til þess að sjálfsbjargarviðleitnin gaus upp og hún náði byssunni af honum og skaut hann til bana. 

Þar með er ekki öll sagan sögð, segir í grein á vef Guardian um málið. Er rannsóknarlögreglan kom á svæðið eftir atvikið sem átti sér stað 18. júlí, fór málið að flækjast enn frekar. 

Árásarmaðurinn, Neal Falls, virtist við fyrstu sýn ósköp venjulegur maður. Hann var 45 ára og hafði áður starfað sem öryggisvörður í Oregon. Hann var ekki á sakaskrá. Það sem lögreglunni þótti undarlegast var að hann var ekki með krónu á sér. Málið var að konan starfaði sem svokölluð fylgdarkona (e. escord) og hafði maðurinn svarað auglýsingu hennar á vefsíðunni Backpage.com. Spurningin var: Ef maðurinn var þangað kominn til að kaupa sér fylgdarþjónustu, af hverju var hann ekki með neina peninga á sér?

En í skotti bíls Falls fundust vísbendingar um ásetning hans. Þar var m.a. að finna handjárn, öxi, sveðju og skothelt vesti. Þá var þar einnig skófla og brúsi af klór.

Nú telur lögreglan að koman hafi ekki aðeins bjargað eigin lífi með því að ná byssunni af honum og skjóta hann, heldur einnig lífi fleiri fylgdarkvenna. Talið er mögulegt að Falls sé ábyrgur fyrir mörgum morðum í nokkrum ríkjum Bandaríkjanna. 

Rannsóknin hefur nú þegar leitt lögregluna til smábæjar í Ohio en þaðan hafa sex konur horfið sporlaust. Fjórar þeirra hafa fundist látnar undanfarna mánuði. Í frétt Huffington Post segir að rannsóknin beinist einnig að Nevada þar sem DNA úr Falls hafi fundist á vettvangi morða vændiskvenna fyrir mörgum árum síðan. 

Í frétt Charleston Gazette-Mail er haft eftir lögreglunni í Charleston að Alríkislögreglan komi nú að rannsókn málsins. Öll gögn um það verði sett í gagnagrunn til að athuga hvort að þau komi heim og saman við fleiri óleyst morðmál. 

Grein Guardian

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert