Fórnarlömb Cosbys á sláandi mynd

Á forsíðunni er einn auður stóll. Hann táknar allar þær …
Á forsíðunni er einn auður stóll. Hann táknar allar þær konur sem Cosby beitti ofbeldi en hafa ekki enn stigið fram.

35 konur, sem allar hafa sakað Bill Cosby um kynferðisofbeldi, voru myndaðar og við þær teknar viðtöl fyrir New York Magazine. Forsíða nýjasta tölublaðsins er sláandi. Konurnar eru sumar á þrítugsaldri, aðrar á níræðisaldri. Meðal þeirra sem segja sína sögu í blaðinu eru fyrirsæturnar Beverley Johnson og Janice Dickinson.

Cosby hafnar ásökunum kvennanna. Hann játaði þó í skýrslutöku vegna dómssáttar við eina konuna fyrir mörgum árum að hafa gefið henni róandi lyf. Hann hefur ekki verið ákærður í málunum en ein kona hefur höfðað einkamál gegn honum.

„Mér leið eins og fanga, mér leið eins og mér hefði verið rænt og ég falin,“ segir  Barbara Bowman m.a. um samskipti sín við Cosby. „Ég hefði getað gengið niður götu í Manhattan og sagt: Mér var nauðgað af Bill Cosby. En hver hefði trúað mér? Enginn. Enginn.“

Svo mikil umferð hefur verið á vef New York Magazine í dag að síðan hrundi. Með fréttinni sem þar birtist eru m.a. sex myndskeiðsviðtöl við konurnar. 

Í frétt blaðsins segir: „Á sjöunda áratugnum, er fyrsta meinta árás Cosbys var gerð, var nauðgun álitin eingöngu ofbeldisfull og framin af ókunnugum. En í dag finnst konum, sérstaklega þeim yngri, mikilvægt að látaí sér heyra og segja frá.“

Brot Cosbys á konunum voru mörg framin á sjöunda og áttunda áratugnum. Þau eru því fyrnd samkvæmt lögum. Mismunandi er þó milli ríkja Bandaríkjanna hvenær brot sem þessi fyrnast. 

Lili Bernard, leikkona sem lék m.a. í þáttunum The Cosby Show segir Cosby hafa brotið gegn sér á tíunda áratugnum. Þá var hún á þrítugsaldri.

„Hann var lærifaðir minn. Hann ávann sér traust mitt og svo gaf hann mér lyf án þess að ég vissi af því. Hann nauðgaði mér. Ég myndi ekki segja að hann væri brjálaðir. Mér fannst eins og hann vissi nákvæmlega hvað hann var að gera.“

Yfir 40 konur hafa á undanförnum mánuðum stigið fram og sakað Cosby um ofbeldi. Þær segjast vita um fleiri konur sem hann braut gegn. Til að undirstrika þetta er autt sæti á forsíðu mynd The New York Magazine. Í kjölfarið hefur kassamerkið #TheEmptyChair náð flugi á Twitter.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert