„Þú ert ógeðsleg, þú ert ógeðsleg!“

Trump leiðir baráttuna um tilnefningu Repúblíkana.
Trump leiðir baráttuna um tilnefningu Repúblíkana. AFP

 Hvernig myndi Donald Trump ganga að takast á við álagið sem fylgir mikilvægum alþjóðlegum samningaviðræðum sem forseti Bandaríkjanna ef hann tapar sér yfir smá brjóstamjólk?

Þessu veltir CNN upp í nýjustu frétt sinni af furðufuglinum Donald Trump sem sækist eftir því að verða forsetaframbjóðandi Repúblíkana. Tilefnið er saga lögmannsins Elizabeth Beck sem hugðist gera hlé á skýrslutöku yfir Trump árið 2011 til að nota brjóstapumpu.

„Hann stóð upp, andlitið á honum varð rautt, hann skók fingurinn í átt að mér og hann öskraði, „Þú ert ógeðsleg, þú ert ógeðsleg,“ og hljóp svo á dyr,“ segir Beck um atvikið.

Atvikinu var lýst í bréfi sem Jared Beck, eiginmaður og samstarfsmaður Elizabeth sendi lögmönnum Trump en New York Times birti bréfið í gær.

Varaforseti og lögmaður Trump samsteypunnar, Alan Garten, sagði CNN að Trump hefði kallað Beck „ógeðslega“ af því að hún hugðist nota pumpuna í miðju herberginu fyrir framan alla.

„Hún var ógeðsleg,“ sagði Garten. „Hún var að reyna að gefa brjóst – að pumpa í miðri skýrslutöku, í skýrslutökuherbergi með fimm lögmönnum og afsakaði sig ekki.“

Garten sagði Beck hafa byrjað að setja pumpuna saman í herberginu og að hún hafi verið að færa pumpuna að brjóstinu á sér þegar atvikið varð. Garten heldur því fram að Trump og lögmenn hans hafi yfirgefið herbergið til að gefa Beck næði og segir hann hegðun hennar ófagmannlega. Sagði hann Beck hafa gripið til pumpunnar af því að hún hafði ekki fleiri spurningar og vissi ekki hvað hún ætti til bragðs að taka.

„Þetta snýst ekki um brjóstagjöf...það gerir það bara ekki.“

Beck segir það hinsvegar hafa verið Trump sem hagaði sér ósæmilega og að hegðun hans hafi sýnt skort á sjálfsstjórn. „Hverskonar leiðtogi Bandaríkjanna myndi hann vera? Mun hann hegða sér svona þegar hann gerir milliríkjasamninga við Kína eða Rússland?“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert