Draga ekki úr olíuframleiðslu

Abdullah El-Badri, aðalframkvæmdastjóri OPEC, samtaka olíuframleiðsluríkja.
Abdullah El-Badri, aðalframkvæmdastjóri OPEC, samtaka olíuframleiðsluríkja. AFP

Abdullah El-Badri, aðalframkvæmdastjóri OPEC, samtaka olíuframleiðsluríkja, segir að samtökin hafi ekki áform um að draga úr olíuframleiðslu þrátt fyrir verðhrun á olíuverði á undanförnum mánuðum.

„Við hittumst í desember á síðasta ári og í júní á þessu ári. Við ákváðum að halda framleiðlsunni okkar í þrjátíu milljón tunnum á dag, eins og áður. Við erum ekki tilbúin að draga úr framleiðslunni okkar,“ sagði hann við fjölmiðla í dag eftir að hafa fundað með orkumálaráðherra Rússlands í Moskvu.

Olíuverð hefur ekki verið eins lágt í marga mánuði, en óttast er að of mikið framboð af olíu sé á markaðinum. 

OPEC og rússnesk stjórnvöld sögðu í sameiginlegri yfirlýsingu eftir fundinn að vísbendingar bentu til þess líklegt væri að meiri jafnvægi kæmist á markaðinn á næsta ári.

Greinendur hafa jafnframt bent á að samkomulagið á milli stórveldanna sex og Írans um kjarnorkuáætlun þess síðarnefnda gæti valdið spennu innan OPEC. Sam­komu­lagið kveður á um að tak­mark­an­ir verði sett­ar á kjarn­orku­áætlun Írana, þeir dragi úr auðgun úr­ans og heiti því að koma sér ekki upp kjarn­orku­vopn­um. Á móti kem­ur munu stór­veld­in aflétta viðskiptaþving­un­um gagn­vart land­inu.

Er bú­ist við því að olíu­fram­leiðsla Írans muni stór­aukast í kjöl­farið sem gæti þrýst niður heimsmarkaðsverði á olíu.

Badri ítrekaði hins vegar að OPEC fagnaði því að viðskiptaþvingunum gagnvart Írönunum verði aflétt. Samtökin gætu ráðið við aukið framboð af olíu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert