Hófst með sjálfsvígssprengingu

Fáni Ríkis íslams við hún í sýrlensku borginni Tal Abyad.
Fáni Ríkis íslams við hún í sýrlensku borginni Tal Abyad. AFP

Minnst 18 létust í blóðugri árás vígasveita Ríkis íslams á þorp í norðurhluta Sýrlands í dag, en bærinn er undir stjórn vopnaðra uppreisnarsveita Kúrda þar í landi. 

Mannréttindasamtök sem starfandi eru í Sýrlandi segja vígamenn hryðjuverkasamtaka Ríkis íslams hafa laumað sér inn í þorpið, sem nefnist Sarrin og er í héraðinu Aleppo, óséða skömmu áður en þeir létu til skarar skríða gegn sveitum Kúrda.

Árásin hófst með sjálfsvígssprengingu fyrir utan skólabyggingu sem sveitir Kúrda nota sem stjórnstöð þegar kemur að aðgerðum þeirra á svæðinu. Því næst hófu liðsmenn Ríkis íslams mikla skothríð á bygginguna og þá sem inni í henni voru.

Fréttaveita AFP greinir frá því að minnst tíu Kúrdar hafi látið lífið auk átta vígamanna hryðjuverkasamtakanna.

Sveitir Kúrda náðu bænum á sitt vald í síðustu viku eftir gríðarhörð átök við vígamenn. Bærinn er staðsettur skammt frá mikilvægri samgönguæð sem Ríki íslams notar til þess að koma vopnum og mannafla á milli staða. Leggja samtökin því ríka áherslu á að ná bænum aftur á sitt vald.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert