Hræddari í Þýskalandi en Sýrlandi

„Ég vil snúa aftur til Sýrlands -- er mjög hræddur hérna,“ sagði sýrlensku flóttamaður við fréttamann AFP þegar hann ræddi við hann við flóttamannabúðir í Þýskalandi. Útlendingahatrið sem hann hefur mætt í Þýskalandi veldur því að hann er öruggari í stríðshrjáðu heimalandinu.

Taher er 27 ára gamall flóttamaður frá Sýrlandi. Hann dvelur í flóttamannabúðum í smábæ í Austur-Þýskalandi, Freital. Bærinn hefur komist í kastljósið fyrir útlendingahatrið sem þar ríkir og mótmæli gegn hælisleitendum.

Að sögn Taher kom hann til bæjarins fyrir mánuði síðan eftir langt og erfitt ferðalag. Hann hefur þegar orðið fyrir árás hóps manna sem gengu í skrokk á honum. 

„Ég fór frá Sýrlandi þar sem ég var hræddur en ég er enn hræddari hér,“ segir Taher sem vildi ekki gefa upp fullt nafn við fréttamann AFP. 

Kveikt í búðum flóttafólks

Gífurlegur fjöldi flóttamanna hefur komið til Þýskalands og hafa þeir mætti andúð meðal þeirra sem hata útlendinga. Flóttamennirnir hafa orðið fyrir líkamsárásum og kveikt hefur verið í húsnæði þeirra. 

Þýska þjóðin stendur frammi fyrir þversögn; kerfi sem tekur vel á móti hælisleitendum, kerfi sem ætlað var að bæta fyrir fortíð þjóðarinnar á tímum nasismans, og mesta flóttamannastraums til Evrópu sem sögur fara af. Þetta hefur valdið því að kynþáttahatur hefur náð nýjum hæðum í landinu. 
Það sem af er ári hefur verið tilkynnt um 200 íkveikjur og árásir á búðir flóttamanna og er þetta álíka margar tilkynningar og allt árið í fyrra en þá fjölgaði þeim mjög hratt frá fyrra ári.

Undanfarna daga hefur Freital, 40 þúsund manna bær þar sem efnahagsástandið er bágt, komist í fréttirnar fyrir andúð á útlendingum. 

Heilsað að hætti Hitlers

Á mótmælafundi nýverið fyrir utan hótel sem hýsir flóttamenn voru nýnasistar áberandi. Þeir heilsuðu að hætti Hitlers, margir kölluðu á flóttafólkið að það væri útlenskir sakamenn og að hælisleitendur væru svín. Fólkið var að mótmæla komu 280 flóttamanna í bæinn. 

Á skiltum var búið að rita ráðleggingar til flóttafólksins um að halda flóttanum áfram og að flóttamenn væru ekki velkomnir. Til þess að tryggja að flóttafólkið vissi hvað stæði á skiltunum voru áletranir á ensku.

Eiga von á hálfri milljón flóttamanna í ár

Í ár er gert ráð fyrir því að um hálf milljón flóttamanna komi til Þýskalands, stærsta hagkerfi Evrópu. Flestallir þeirra eru að flýja stríðsástand og fátækt í heimalandinu, Sýrlandi, Írak, Afganistan og landa á Balkanskaganum.

Sjálfboðaliðar víðsvegar um Þýskaland hafa gefið flóttafólkinu mat, fatnað, leikföng og boðið þeim upp á þýskukennslu í yfirhlöðnum flóttamannabúðum. Í sumum tilvikum halda þúsundir til í íþróttahöllum, fyrrverandi herstöðvum og jafnvel í tjaldbúðum.

En þessi mikli straumur flóttafólks hafa vakið hörð viðbrögð útlendingahaturs, meðal annars undir merkjum samtakanna PEGIDA, sem að eig­in sögn berj­ast gegn íslam­svæðingu vest­rænna ríkja. Meðal annars tóku um 25 þúsund manns þátt í göngu PEGIDA í Dresen fyrr á árinu. Í síðustu viku réðst hópur öfgamanna á starfsfólk Rauða krossins sem var að setja upp tjaldborg fyrir um 800 flóttamenn, flesta frá Sýrlandi. Á föstudag kom til átaka milli andstæðra fylkinga í borginni og slösuðust þrír.

Bærinn Freital er ekki langt frá Dresden og þar hefur ný hreyfing verið sett á laggirnar FRIGIDA - bærinn okkar verður áfram hreinn -- Freital er frjáls. 

Í allt sumar hefur gengið á ýmsu í bænum og ítrekað komið til slagsmála milli stuðningsmanna flóttamanna og þeirra sem berjast gegn flóttafólki. Nú í vikunni var bifreið stjórnmálamanns, sem styður flóttafólkið, Michael Richter, sprengdur upp í bænum en til allar hamingju þá var bifreiðin mannlaus.

„Ástandið er að verða gríðarlega viðkvæmt ... Freital skiptist í tvennt,“ segir Steffi Brachtel, sem hefur komið að skipulagningu mótmæla við FRIGIDA. Hún segir að Freital hafi breyst í „brúnan“ bæ og vísar þar til búninga nasista, eftir fall Berlínarmúrsins árið 1989 en nú sé hann að breytast í „dökkbrúnan“ bæ.

Ræða breytingar á lögum

Nokkur þýsku ríkjanna sextán hafa kvartað yfir því hversu þungar byrðar þau þurfa að bera vegna hælisleitenda. Telja þau eðlilegra að settir verði á laggirnar sambandssjóðir sem beri kostnað af læknishjálp, húsnæði og mataraðstoð við hælisleitendur fremur en að það sé á herðum ríkjanna sjálfra.

Stjórnmálaflokkarnir ræða um hvort setja þurfi ný innflytjendalög til þess að skilgreina betur muninn á fólki sem er á flótta vegna stjórnmálaástands eða efnahagsaðstæðna. Meðal annars hvaða lönd eru örugg fyrir eigin borgara. Sem þýðir að viðkomandi þegnar geta ekki sótt um hæli. Meðal slíkra landa eru Serbía, Bosnía og Makedónía.

En hatrið leynis víða og að sögn Brachtel þá þekkir þú ekki lengur nýnasistann á hermannaklossunum, svörtu fötunum og krúnurökuðu höfði. Því í dag eru þeir svo miklu fleiri og margir sem þér hefði aldrei dottið í hug að aðhylltust slíkar skoðanir. „Þetta gerir hættuna svo miklu meiri en áður,“ segir Brachtel.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert