Spánn gæti orðið næsta Grikkland

Yanis Varoufakis, fyrrum fjármálaráðherra Grikklands.
Yanis Varoufakis, fyrrum fjármálaráðherra Grikklands. AFP

Örlög Spánverja gætu orðið hin sömu og Grikklands ef Spánverjar þurfa að þola sömu niðurskurðaraðgerðir og Grikkir. Þetta segir Yanis Varoufakis, fyrrverandi fjármálaráðherra Grikklands.

„Hættan á því að verða Grikkland er alltaf til staðar og verður að raunveruleika ef sömu mistök og gerð voru í Grikklandi verða endurtekin,“ sagði hann í samtali við spænska blaðið El Pais.

Varoufakis sagði af sér sem fjármálaráðherra daginn eftir að Grikkir höfnuðu skilmálum lánardrottna landsins í þjóðaratkvæðagreiðslu 5. júlí. Viku síðar samþykkti gríska ríkisstjórnin enn harðari skilmála en þjóðin hafði hafnað.

For­sæt­is­ráðherra Spán­ar, Mariano Rajoy, var fyrstur forystumanna ríkja Evrópusambandsins til þess að kalla eftir því að gríska ríkisstjórnin, undir forystu Syriza, bandalags róttækra vinstriflokka, færi frá völdum.

Hægristjórn hans stendur sjálf frammi fyrir vaxandi stuðningi við róttæka vinstriflokkinn Podemos, sem er bandamaður Syriza í Grikklandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert