44 morð framin á hverjum degi

AFP

Mjög hefur dregið úr manndrápum og líkamsárásum á undanförnum áratugum í Bandaríkjunum. Þó eru 44 morð framin á hverjum degi að meðaltali í landinu, samkvæmt nýrri rannsókn sem hefur verið birt í Journal of American Medical Association.

Á árunum 1980 til 2013 meira en helmingaðist morðtíðnin.

Í rannsókninni kemur fram að sextán þúsund manns séu myrtir í Bandaríkjunum á hverju ári og er morð algengasta dánarorsök þeldökkra í landinu.

Árið 1980, þegar morðtíðnin var hvað hæst, voru 10,7 af hverjum hundrað þúsund Bandaríkjamönnum myrtir, en hlutfallið var komið alla leið niður í 5,1 árið 2013. Þó virðist morðtíðnin hafa hækkað síðan þá í mörgum stórborgum.

Nú þegar hafa 87 morð verið framin í höfuðborginni, Washington, það sem af er ári, samanborið við 69 morð á sama tíma í fyrra. Í borginni Baltimore voru alls 45 morð framin í júlímánuði, sem er það mesta í einum mánuði frá því árið 1972.

Þá kemur fram í rannsókninni að málum er varða líkamsárásir og illa meðferð á börnum hafi fækkað verulega á seinustu árum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert