Salernisskortur vandamál víðar

Preikestolen við Lysefjörð í Noregi
Preikestolen við Lysefjörð í Noregi Af vefnum VisitNorway

Fleiri en Íslendingar glíma við þann vanda að ferðamenn þurfi að fara á klósett á ferðalögum. Einn vinsælasti áfangastaður ferðamanna í Noregi, kletturinn Preikestolen (Predikunarstóllinn), er orðinn þéttsetinn af ferðamönnum sem þurfa oft að ganga örna sinna í guðsgrænni náttúrunni.

Kletturinn er um 600 metrar að hæð og stendur við Lysefjörð. Þeir sem ætla að klífa klettinn þurfa að ganga í um það bil tvær klukkustundir áður en á toppinn er komið. Um 300 þúsund ferðamenn koma þangað á hverju ári og þar ekkert klósett að finna. Því hafa þeir þurft að svara kalli náttúrunnar í í kjarrlendi á leiðinni upp kletttinn.

Norskir fjölmiðlar fjölluðu um þetta í gær og segir Audun Rake, sem er leiðsögumaður á Preikestolen, að þetta klósettleysi sé að verða vandamál vegna fjölda ferðamanna. Nú sé varla hægt að finna þann runna í nágrenninu sem ekki hýsi mannasaur. „Og á sólríkum dögum lyktar hann,“ segir Rake í samtali við Stavanger Aftenblad. 

Ástandið er verst þar sem hægt er að tjalda, en tjaldbúum hefur fjölgað gríðarlega á þessum slóðum undanfarin ár. Rake segir að fólk geri þarfir sínar þarna eins og alls staðar en vandamálið sé skortur á salernum og fjölgun ferðamanna. Vonir standa til þess að bætt verði úr þessu vandamáli fljótlega og að á næsta ári verði búið að koma upp salernisaðstöðu.

Dagbladet

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert