Fundu 108 ára gamalt flöskuskeyti

Flöskuskeytið.
Flöskuskeytið. Ljósmynd/Winkler-hjónin

Hjón fundu í apríl flöskuskeyti á strönd þýsku eyjarinnar Amrum í Norðursjó. Bréf í flöskunni hét hverjum þeim sem findi flöskuna einum skilding ef hann sendi meðfylgjandi póstkort til Hafrannsóknafélagsins í Plymouth í Bretlandi með upplýsingum um hvar flaskan fannst. Þrátt fyrir að hafa fundist í apríl var ekki greint frá fundinum opinberlega fyrr en á dögunum.

Hjónin Marianne og Horst Winkler sendu póstkortið til Bretlands og kom í ljós að flöskuskeytið var hluti af rannsóknum vísindamanna undir forystu George Parker Bidder, fyrrverandi forseta félagsins, á hafstraumum í Norðursjó samkvæmt fréttvef breska dagblaðsins Daily Telegraph. Samtals voru rúmlega eitt þúsund flöskum varpað í Norðursjó í þessum tilgangi á árunum 1904-1906. Margar fundust af sjómönnum og öðrum skolaði á land. Enn aðrar hafa aldrei fundist.

Hugsanlegt er talið að um sé að ræða elsta flöskuskeyti sem vitað er um að hafi fundist. Haft er eftir Guy Baker starfsmanni Hafrannsóknafélagsins að líklega væri flöskuskeytið 108 ára gamalt. Beðið er eftir svari við þessu frá Heimsmetabók Guinness. Hvað Winkler-hjónin annars varðar varð félagið sér úti um gamlan skilding á ebay og sendi þeim með kæru þakklæti.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert